„Aðstaðan er hreint út sagt óboðleg“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar og áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar og áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis. mbl.is/Hákon

„Ég er búin að óska eftir að fulltrúar Heyrnar- og talmeinastöðvar fái að koma á fund fjárlaganefndar,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, en nefndin hefur í kjölfarið boðað fulltrúana á fund á mánudag.

„Aðstaðan er hreint út sagt óboðleg,“ segir Þorbjörg í samtali við mbl.is, en hún kveðst hafa heimsótt Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) eftir að stofnunin skilaði inn umsögn til fjárlaganefndar í lok október.

Aðeins hægt að sækja þjónustuna í Reykjavík

Í umsögninni segir, að stofnunin búi við afar slæmar aðstæður í löngu úreltu húsnæði sem engan veginn sé boðlegt nútíma heilbrigðisstofnun ásamt stórkostlegri manneklu og fjárskorti. Gerir stofnunin því athugasemd við að fjárveitingar til stofnunarinnar, samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2024, dugi ekki einu sinni fyrir núverandi launakostnaði. 

Þá er einnig tekið fram að allri þjónustu við landsbyggðina hafi verið hætt eftir að fækka þurfti stöðugildum og þar af leiðandi ferðastöðvum stofnunarinnar sem komu til eftir að móttökum á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra var lokað. Því þurfi notendur þjónustunnar að ferðast til Reykjavíkur til þess að sækja þjónustuna.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er til húsa við Háleitisbraut 1.
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er til húsa við Háleitisbraut 1. mbl.is/Árni Sæberg

2000 manns á biðlista og skert lífsgæði 

„Mér finnst miðað við þessar lýsingar og það að þessi þjónusta sé búin að sæta niðurskurði nánast frá hruni að þetta bara getur ekki gengið svona. Þetta er eina heilbrigðisstofnunin sem að sinnir heyrnarskertum og heyrnarlausum Íslendingum,“ segir Þorbjörg og bætir við það séu þúsundir einstaklinga. 

„Mér finnst blasa við að hérna sé hægt að gera betur og að hérna verði að gera betur.“

Þorbjörg segir mikilvægt að hafa í huga að umsögnin snúist ekki einungis um húsakynni, fjárframlög, tæki og tól, heldur snúist hún um þúsundir einstaklinga sem reiði sig á þjónustu HTÍ, enda sé hana hvergi annars staðar að sækja. 

„2000 manns á biðlistum að bíða eftir þjónustu. Þetta eru aldraðir, en líka bara börn og ungmenni og þetta hefur áhrif á talþroska og lífsgæði barna.“

Heilbrigðisþjónusta undanskilin í aðhaldi ríkisins

Aðspurð hvað hún telji hafa farið úrskeiðis í þessu máli segir Þorbjörg erfitt að átta sig á því, enda hafi bæði forstöðumenn stofnunarinnar og heilbrigðisráðherra staðfest að samskipti varðandi vandann hafi átt sér stað. 

Hún kveðst vissulega hafa skilning á að yfirvöld boði aðhald í fjárlagafrumvarpinu í ljósi aðstæðna, en að það hafi hins vegar ávallt verið skýrt að grundvallar heilbrigðisþjónusta sé þar undanskilin. 

„Þetta er eins skýrt dæmi og verið getur, þegar við erum með eina stöð sem að sinnir allri þjónustu um landið allt, að það bara gengur ekki upp að ætla að hafa þetta svona.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert