Af hverju var Grindavík rýmd?

Það var ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum að rýma Grindavík í kvöld. Sú ákvörðun er tekin vegna ráðgjafar almannavarna. En hvers vegna?

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, segir í viðtali við mbl.is að ákvörðunin hafi verið tekin í kjölfar ráðleggingar vísindamanna. Hægt er að horfa á myndbandsviðtal við Víði hér fyrir ofan.

„Þá tók það enga stund að taka þessa ákvörðun og koma henni í framkvæmd,“ segir Víðir.

Frá söfnunarstöð í Grindavík í kvöld.
Frá söfnunarstöð í Grindavík í kvöld. mbl.is/Eyþór

Þróunin hröð eftir kvöldmat

Spurður um aðdragandann segir Víðir að fljótlega upp úr hádegi hafi jarðskjálftahrinan verið orðin kröftug og að hún hafi orðið enn öflugri eftir því sem leið á daginn.

„Um fimmleytið er ákveðið að hækka viðbúnaðarstig almannavarna og þá fórum við á hættustig,“ segir Víðir.

Það felur í sér að viðbúnaður er aukinn.

Hann segir að þróunin hafi verið hröð eftir kvöldmat þegar farið var yfir gögn úr mælitækjum Veðurstofunnar, GPS-gögn, myndir úr gervitunglum og fleira.

Björgunarsveitir að störfum í Grindavík í nótt.
Björgunarsveitir að störfum í Grindavík í nótt. mbl.is/Eyþór

Lengdin kom helst á óvart

„Þegar þetta var lagt saman þá sáu menn að það voru allar líkur á því að það væri að myndast öflugur og nokkuð stór kvikugangur frá þessum svæðum sem skjálftarnir voru á og í áttina til Grindavíkur,“ segir Víðir.

„Um tíuleytið fóru vísindamenn að túlka þetta þannig að það væri ekki hægt að útiloka það að kvikugangurinn gæti náð að Grindavík.“

Mat vísindamanna og ráð almannavarna voru kynnt lögreglustjóranum á Suðurnesjum og ákvörðun um rýmingu tekin í kjölfarið.

„Kosturinn við þessa atburðarás er sá að við verðum búin að rýma áður en gos hefst,“ segir Víðir.

Aðspurður segir hann að umrædd lengd á kvikuganginum hafi helst komið á óvart.

Frá Grindavík í kvöld.
Frá Grindavík í kvöld. mbl.is/Eyþór

Spurning um klukkustundir frekar en daga

„Það er ekkert víst að þetta verði dagar, þetta getur verið þess vegna á morgun sem þetta kemur upp. Hrinan er búin að vera mjög öflug og það eru sýnilegar hreyfingar á yfirborðinu,“ segir Víðir spurður hvort að líkur séu á eldgosi.

Spurður um það hversu lengi megi búast við því að rýming vari segir Víðir að hún geti varið í nokkra daga.

„Við þurfum að fylgjast vel með því. Við þekkjum það að virknin getur færst þó það byrji að gjósa á einum stað,“ segir Víðir. Hann bætir við að þó svo að það byrji að gjósa langt frá Grindavík þá sé ekki víst að það verði hægt að hleypa íbúum til Grindavíkur.

„Við munum meta það jafnóðum,“ segir Víðir.

Á fundi í samhæfingarmiðstöðinni í Grindavík.
Á fundi í samhæfingarmiðstöðinni í Grindavík. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert