Óvænt þróun skjálftavirkninnar

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, ræddi við …
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, ræddi við mbl.is um stöðuna undir Grindavík. Samsett mynd

Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði við Há­skóla Íslands, segir lítið lát á skjálftavirkni á Reykjanesskaga. Hann segir koma á óvart hversu langt skjálftavirknin teygir sig út á sjó. 

„Skjálftavirknin er farin að teygja sig 30 metra að dýptarlínunni. Það er þessi óvænta þróun í þessu, þessi lárétta færsla á skjálftavirkninni undir Grindavík og út í sjó,“ segir Þorvaldur.

Aðspurður segir hann ekki gott að segja til um hvort færslan hafi einhverja þýðingu fyrir staðsetningu hugsanlegs eldgoss. Miðað við mikla skjálftadreifingu á síðustu klukkustundunum telur hann þó líklegt að kvikugangurinn sé orðinn langur. 

„Miðað við skjálftadreifinguna þá gæti hann verið orðinn 15 kílómetra langur, þó ég þori ekki að fullyrða neitt um það,“ segir hann og bætir við að skjálftavirknin nái í það minnsta yfir 15 kílómetra svæði. 

Skjálftavirknin ekki að deyja út 

Þorvaldur segir aðeins hafa hægst á skjálftavirkni frá því í gær, en þó ljóst að skjálftavirknin sé ekki að deyja út. 

„Ég veit ekki nákvæmlega hversu grunnt kvikan liggur, en af því að skjálftavirknin heldur áfram þá eru líkurnar á því að það verði gos alltaf að aukast.“ Hann segir þó erfitt að segja til um hvar það kemur upp á þessum tímapunkti. 

„Miðað við þær upplýsingar sem við höfum frá því fyrr í dag, þá var kvikan komin grynnst í Grindavík,“ segir hann en bætir við að það sé þó ekki þar með sagt að það muni gjósa þar.

Telur kvikuna þurfa einn til tvo sólarhringa í viðbót

Á upplýsingafundi almannavarna, sem fram fór í hádeginu í dag, sagði Bene­dikt Hall­dórs­son, fag­stjóri jarðskjálftavár á Veður­stofu Íslands og rann­sókn­ar­pró­fess­or við Há­skóla Íslands, að samkvæmt fyrstu lík­an­reikn­ing­um, byggt á gervi­tung­la­gögn­um frá því í gær­kvöldi, væri dýpið niður á topp kviku­gangs­ins, norður af Grinda­vík, áætlað um 1,5 kílómetra. 

Á einum sólarhring hefur kvikan þannig farið úr 4-5 kílómetra dýpi í 1,5 kílómetra dýpi, segir Þorvaldur. Miðað við skjálftavirknina, sem hann segir hafa hægt aðeins á sér, telur Þorvaldur kvikuna þurfa um einn til tvo sólarhringa til að komast upp á yfirborðið, „þennan síðasta kílómetra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert