Staðfesta kvikugang þvert undir Grindavík

Ný gögn staðfesta að kvikugangurinn liggur undir Grindavík.
Ný gögn staðfesta að kvikugangurinn liggur undir Grindavík. mbl.is/Eyþór

Nýjustu upplýsingar, sem byggðar eru á gervitunglamyndum og GPS-gögnum, staðfesta kvikugang sem hóf að myndast í gærkvöldi frá Sundhnúkagígum, í suð-suðaustur og undir og í gegnum Grindavík að neðanverðu.

Þetta herma upplýsingar frá Veðurstofunni.

Í tilkynningu er tekið fram að jarðskjálftavirkni haldi áfram en að heldur hafi þó dregið úr ákefðinni frá því í gærkvöldi.

Mælast á 2-4 km dýpi

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að skjálftarnir mælist nú á um tveggja til fjögurra kílómetra dýpi og sumir mælist grynnra.

GPS-mælingar gefa til kynna að mikil láréttfærsla hefur orðið í allar áttir á svæðinu í kringum Grindavík, samtals upp á metra.

Stöðufundur haldinn að morgni

„Mesta virknin mælist nú í grennd við Grindavík. Frá því kl. 18 í gærkvöldi hafa um 500 jarðskjálftar mælst á svæðinu, þar af um 14 yfir 4,0 að stærð og finnast þeir vel á suðvesturhorninu,“ segir í tilkynningunni.

Ef staðan helst óbreytt verður stöðufundur haldinn kl. 9.30 að morgni þar sem staðan verður endurmetin, ásamt mögulegum sviðsmyndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert