Vonast til að bjarga hestum úr Grindavík í tæka tíð

Tveir Grindvíkingar voru stöðvaðir af lögreglunni þegar þeir vildu sækja …
Tveir Grindvíkingar voru stöðvaðir af lögreglunni þegar þeir vildu sækja hesta sem eru enn í Grindavík. Ljósmynd/Aðsend

Grindvíkingarnir Kári Guðmundsson og Ragnar Eðvardsson héldu af stað í björgunarleiðangur í dag frá Eyrarbakka til þess að sækja hesta sem sitja fastir í Grindavík. Lögreglan meinar þeim þó aðgang að bænum og með eldgos yfirvofandi óttast þeir að ekki verði hægt að bjarga hrossunum í tæka tíð.

Þegar mbl.is slær á þráðinn hjá Kára eru ferðalangarnir búnir að leggja bílunum sínum við Hafnir á Reykjanesi, þar sem lögreglan hefur neitað að hleypa þeim inn í bæinn.

Hestaeigendur flúðu með hrossin áður en neyðarstigi var lýst yfir  

Hestaeigendur í Grindavík ákváðu sjálfir í gærkvöldi að flytja hesta sína úr bænum, áður en neyðarstigi var lýst yfir og Grindavík þar af leiðandi rýmd.

Ekki komust þó öll hross úr bænum og að sögn Kára eru enn 22 hestar sem eftir sitja í Grindavík, auk mikils fjár. Á meðal þeirra hrossa eru hestar í eigu vinar Kára, en Kári segir vin sin eiga erfitt með að sækja þá sjálfur.

Viðbragðsaðilar rýmdu Grindavík í seint gærkvöldi.
Viðbragðsaðilar rýmdu Grindavík í seint gærkvöldi. mbl.is/Eyþór

Aðrir fengið að fara inn í bæinn

Í morgun hringdi Kári í lögregluna og þá var honum tjáð að lögregla myndi hafa samband við hann um að bjarga þessum dýrum. En eftir hádegi hafði ekkert símtal borist og þá ákváðu hann og förunautur hans að halda vestur til Grindavíkur og sækja dýrin.

„Við áttum ekki von á öðru en að við fengjum að bjarga þessum búfénanði sem við ætluðum að sækja – sjö hross úti á Stað. En þeir [lögreglumennirnir] neita okkur að fara í gegn. Svæðið sé lokað,“ segir Kári, sem segir einnig að fleiri búfénaðseigendur séu í svipaðri stöðu og hann sjálfur.

„En á sama tíma koma einhverjir tveir starfsmenn frá Matorku [fyrirtæki úr Grindavík] sem fengu að fara í gegn,“ bætir hann við og segir þá einnig að sumum Grindvíkingum hafi verið hleypt í bæinn til þess að sækja verðmæti.

„Eru þá sem sagt dauðir hlutir í verðmætum metnir meira heldur en lifandi búfénaður? Já, hjá lögreglunni á Suðurnesjum.“

Segir lögregluna brjóta lög

Kári segist vera búinn að hafa samband við Matvælastofnun vegna hestanna og félagarnir bíða því svara um hvort stofnunin geti beitt sér fyrir því að koma þessum dýrum úr bænum.

„Að svo stöddu er okkur sagt [af lögreglu] að okkur verði ekki hleypt inn fyrr en á morgun, en það gæti orðið of seint,“ segir Kári og bætir við að til síns vits sé enginn hjá lögreglu að vinna að því að koma búfénaðinum úr bænum.

„Þetta framferði lögreglu er í raun brot á landslögum segir hann,“ segir hann og bendir á að 7. grein laga um velferð dýra, sem kveður á um hjálparskyldu – þ.e. að þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé bjargarlaust að beri að veita því umönnun eftir föngum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert