Hafa uppgötvað sigdal í Grindavík

Horft yfir Grindavíkurbæ í október.
Horft yfir Grindavíkurbæ í október. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það hefur myndast eins metra djúpur sigdalur í gegnum Grindavíkurbæ og gliðnunin hélt áfram í dag. Þannig það er alveg ljóst að kvika er komin á mjög grunnt dýpi undir bænum.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. 

Hann segir möguleikann fyrir hendi að það fari að gjósa inni í Grindavík. Væri það þá sennilega í sigdalnum sem myndast hefur.

„Þetta fer í gegnum sum húsin, allavega í gegnum skólann,“ segir Þorvaldur.

Þor­vald­ur Þórðar­son prófessor segir enn möguleika að gos komi upp …
Þor­vald­ur Þórðar­son prófessor segir enn möguleika að gos komi upp norðar í Sundhnúkagígaröðinni. Samsett mynd

Gæti verið tugi metra undir yfirborðinu

„Sigdalur myndast þegar kvika kemur upp á mjög lítið dýpi og er komin mjög nálægt yfirborði,“ útskýrir hann. Þó sé erfitt að meta hve nálægt kvikan er yfirborðinu. 

„Í gærkvöldi var hún komin í 800 metra, svo hún er töluvert grynnra núna. Það gætu verið einhverjir tugir metra í hana.“ Bíða verði þó hitamælinga á svæðinu til að meta nálægðina.

Þorvaldur segir sigdalinn hafa uppgötvast í dag við myndatökur og kortleggingar.

„Menn hafa bara ekki tekið eftir honum,“ segir hann og bætir við að vísindamenn hafi ekki verið að horfa úr nægilega mikilli fjarlægð til að koma auga á hann.

Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík.
Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík. Ljósmynd/Siggi Anton

Gæti gerst rétt strax eða aldrei

Komi upp gos í bænum myndi þyngdin á hraunflæðinu vera meira til vesturs og síðan til sjávar. „En það fer alltaf eitthvað í hina áttina,“ segir Þorvaldur.

Mjög erfitt sé að ákvarða eitthvað um tíma.

„Þetta gætu verið einhverjar mínútur. Eða þetta gæti hætt og kvikan kemur ekki upp.“ Ef til vill hafi kvikan ekki nægilegt afl til að komast alla leið upp á yfirborðið. Hann segir að eftir því sem lengri tími líður, og ekki gýs, þá minnki líkurnar á eldgosi inni í bænum.

Möguleikinn á að þróunin nemi staðar er því fyrir hendi. Eða þá að gosið komi upp norðar, í Sundhnúkagígaröðinni.

Atburðurinn gæti endurtekið sig síðar

Þetta geti komið aftur fyrir í framtíðinni.

„Við höfum fengið fimm innskot á fjórum árum. Ég held að sú þróun sé ekkert hætt og gæti haldið áfram í jafnvel áratug eða svo. Atburður sem þessi gæti hugsanlega endurtekið sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert