Fjárhagsleg staða almennings víða slæm

Guðbrandur og Jóhann Friðrik vöktu báðir athygli á verðbólgunni og …
Guðbrandur og Jóhann Friðrik vöktu báðir athygli á verðbólgunni og slæmu efnahagsástandi í landinu á Alþingi í dag. Samsett mynd/Sigurður Bogi/Hari

„Verða vextir hækkaðir einu sinni enn? Hvaða áhrif mun það hafa á matarkörfuna eða fasteignalánin?“

Þetta var meðal þess sem Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, velti fyrir sér á Alþingi í dag en hann og Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, vöktu báðir athygli á verðbólgunni og efnahagsástandi þjóðarinnar þegar þeir tóku til máls umræðu um störf þingsins.  

Telja þeir báðir brýnt að ná verðbólgunni niður og segir Jóhann það jafnframt stóra verkefnið í efnahagsmálum hér á landi.

Ríki og sveitarfélög sýni gott fordæmi

 „Það er alveg ljóst að við erum í mikilli óvissu vegna náttúruhamfara og það mun ekki auðvelda okkur róðurinn á næstu misserum. Fram hefur komið í fjölmiðlum að verkalýðshreyfingin hefur komið þeim skilaboðum á framfæri við stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins að til að liðka fyrir langtímasamningum þurfi að taka á kostnaðarhækkunum á öllum sviðum. Kallað er eftir því að hið opinbera, verslun, þjónusta og tryggingafélög haldi aftur af hækkunum og hækki gjaldskrár sínar ekki umfram 2,5% á næsta ári,“ sagði Jóhann.

Tók hann fram að hann væri sammála þessari nálgun og teldi að ríki og sveitarfélög ættu að ganga fram með góðu fordæmi.

„Æðstu embættismenn bundu sína launahækkun hér fyrr á árinu við 2,5%. Áætlaðar gjaldskrárhækkanir ríkisins eru nú 3,5%. Ljóst er að gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga geta að öllu óbreyttu hækkað verulega þó að vissulega sé það breytilegt eftir málaflokkum.“

Haft var eftir Vil­hjálm­i Birg­is­syni, formanni Starfs­greina­sam­bands Íslands, í Morgunblaðinu í dag að hann teldi skyn­sam­legt að gera þá kröfu að all­ir, ríki og sveit­ar­fé­lög, versl­un og þjón­usta og trygg­inga­fé­lög, myndu skuld­binda sig til að hækka ekki gjald­skrár eða al­mennt verð um meira en 2,5% á næsta ári.

Mikilvægt að ná samvinnusamningum

Sagði Jóhann jafnframt að til að ná verðbólgu niður yrðum við öll að ganga í takt.

„Ég vil skora á sveitarfélög í landinu að fylgja fordæmi ríkisins og hækka gjaldskrá sína í mesta lagi um 3,5%. Lægri verðbólga mun koma sveitarfélögunum vel til lengri tíma og skilaboðin væru skýr.

Samtök atvinnulífsins gætu beint því sama til sinna félagsmanna og þannig stutt við langtímakjarasamninga þar sem kaupmátturinn væri varinn hér á landi og hefði jákvæð áhrif á verðbólgu til lækkunar og þar með lækkunar vaxta. Það er mikilvægt að við náum hér samvinnusamningum til lengri tíma, okkur öllum til hagsbóta.“ 

Á morgun rennur upp enn einn vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans.
Á morgun rennur upp enn einn vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans. mbl.is/Golli

Margir í slæmum málum

Guðbrandur benti í upphafi ræðu sinnar á að á morgun rynni upp enn einn vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans. Sagði hann að líkt og oft áður væri almenningur uggandi vegna málsins en fyrir lægi að verðbólga væri ekki að minnka.

„Stýrivextir eru nú þegar 9,25%. Það er ekki einfalt fyrir fólk að takast á við enn frekari hækkanir afborgana sem í mörgum tilfellum hafa tvöfaldast hjá þeim sem tóku óverðtryggð lán á sínum tíma. Staðan er önnur hjá þeim sem eru með verðtryggð lán en þar horfa margir upp á það að sjá eignarhlutinn í heimili sínu étast upp og jafnvel hverfa. Önnur staða en alls ekki betri,“ sagði hann.

Ættu að beita gjaldeyrisvarasjóði sínum 

Tók Guðbrandur fram að það væri hlutverk Seðlabankans að sjá til þess að verðbólga væri innan fyrir fram ákveðinna markmiða sem væru 2,5%.

„Seðlabankinn hefur hins vegar annað tæki en stýrivaxtahækkanir og það verður að teljast óeðlilegt að því sé ekki beitt í baráttunni við verðbólgu. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabanka er sagður mjög stór og það væri rétt af Seðlabankanum að beita honum við aðstæður sem þessar.

Gengi krónunnar hefur verið að veikjast. Það hefur veikst um 4,5% síðastliðna tvo mánuði og 6% síðastliðna þrjá mánuði. Það að krónunni sé leyft að veikjast vinnur gegn markmiðum bankans um að ná niður verðbólgu og í raun óskiljanlegt að bankinn skuli leyfa gengi krónunnar að veikjast við aðstæður sem þessar,“ sagði hann.

Benti hann á að lokum að greinendur gerðu sér engar vonir um að verðbólgan kæmi til með að minnka fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári og það væri útlit fyrir að margar fjölskyldur myndu gefast upp.

„Að Seðlabankinn sé að vinna í sitt hvora áttina gengur ekki ef við ætlum að ná einhverjum árangri í baráttu við verðbólguna og allt of háa vexti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert