Líkur á gosi fara hægt minnkandi

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni. mbl.is/Eyþór Árnason

Líkur á eldgosi fara hægt minnkandi. Skjálftavirkni hefur minnkað og óljóst hve langan tíma það tekur kvikuhólfið nærri Svartsengi að fyllast að nýju. Enn er þó hreyfing á kvikuganginum sem liggur grunnt, meðal annars við Grindavík, og því full ástæða til að fara öllu með gát.

Þetta kemur fram í máli Benedikts Gunnars Ófeigssonar, fagstjóra aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Landrisið mælist við Svartsengi þar sem kvikusylla er undir. Hins vegar hefur syllan verið tóm og engin spenna mælst þar. Það gefur til kynna að einhverjar vikur eða mánuðir gætu liðið þar til hún fyllist að nýju. Eins gæti hægst á kvikusöfnun eða landris hætt.

Enn þarf lítið til svo kvikan sæki upp á yfirborðið við kvikuganginn.

Himinninn yfir Grindavík, sem augu þjóðarinnar hvíla nú á. Augu …
Himinninn yfir Grindavík, sem augu þjóðarinnar hvíla nú á. Augu jarðvísindamanna beinast á sama tíma að Hagafelli, norðan bæjarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikuhólfið algjörlega tómt 

„Langlíklegast er að það taki kvikuhólfið einhvern tíma til að fylla sig aftur. Það gæti tekið einhverjar vikur eða mánuði ef miðað er við hraðann núna. Svo getur líka hægt á þessu. En þau merki sem við fylgjumst helst með eru aukin skjálftavirkni. Það er ekkert útilokað að eitthvað gos verði vegna landsrissins þó ekki verði aukin skjálftavirkni, en það er frekar ólíklegt. Það myndi koma svolítið á óvart,“ segir Benedikt.

Eins og fram kom á mbl.is í morgun höfðu mælst um 100 skjálftar frá miðnætti sem þykir lítið ef miðað er við það sem á undan hefur gengið. Benedikt bendir hins vegar á að það sé afar skammur tími til að álykta um að minni líkur séu á gosi vegna landrissins við Svartsengi.

„Kvikuhólfið er algjörlega tómt og engin spenna á því. Það getur tekið við ansi lengi áður en það fer að brotna aftur. Við höfum hins vegar ekki mælitæki til að segja hve langur tími er þangað til að það gerist.“

Fara hægt í sakirnar 

Í ljósi þessarar atburðarásar er hægt að slá því föstu að minni líkur séu á gosi?

„Við reynum að fara hægt í sakirnar með að segja það því við sjáum enn hreyfingar í kvikuganginum. Það sem við erum að horfa á núna er gos á ganginum og líkur á því. En ef við skoðum aðstæður á kvikuganginum þá kannski fara goslíkur hægt minnkandi. En það er allt of snemmt að slá af þann möguleika.

Sérstaklega í ljósi þess að það er fólk sem er að fara inn í Grindavík og menn sem eru að vinna í Svartsengi. Við viljum vera nokkuð viss áður en við sláum föstu minnkandi líkum á gosi en það má engu að síður segja að það séu hægt minnkandi líkur á gosi,“ segir Benedikt.

Getum slakað á eftir viku 

Hann segir að það eina sem hægt sé að gera sé að fylgjast með kvikuhreyfingu dag frá degi.

„En ef ekkert er búið að gerast í viku þá getur maður aðeins slakað á með að það sé að koma gos þarna. En í ljósi þess að við sjáum enn hreyfingu í ganginum þá getum við ekki slegið neinu föstu. Það er mjög mikilvægt að fara varlega í allar vangaveltur því óvissan er mjög mikil og of mikið í húfi á svæðinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert