Utanbæjarmenn liggja undir grun

Frá Bolungarvík.
Frá Bolungarvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögregluna á Vestfjörðum grunar að utanbæjarmaður eða -menn hafi stolið GPS-höttum af gröfum í bænum um þar síðustu helgi. Hattarnir eru margra milljóna virði.

„Það er eitthvað sem okkur grunar, að það séu utanbæjarmenn en við getum ekki staðfest það,” segir Þórir Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður spurður út í málið.

Elvar Sigurgeirsson, vinnuvélaverktaki í Bolungarvík, sagðist í samtali við mbl.is á föstudaginn telja að „einhverjir utanbæjarplebbar” hefðu framið verknaðinn.

Að sögn Þóris hefur enginn verið handtekinn vegna málsins. „Við höfum okkar grunsemdir, sem við erum skoða. Við vonum að þetta fari að skýrast.”

Lögreglan óskaði eftir ábendingum vegna málsins og segir Þórir lögregluna hafa fengið fleiri ábendingar síðan mbl.is ræddi við hann á föstudaginn. Þær hafa þó ekki skipt sköpum í rannsókninni.

Spurður út í þýfið segir hann lögregluna ekki hafa vitneskju um að reynt hafi verið að selja GPS-hattana hérlendis, enda erfitt þar sem hattarnir séu skráðir. „Þetta getur aldrei farið í umferð á Íslandi,” segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert