Edda segist alltaf hafa ætlað sér að mæta fyrir rétt

Edda Björk Arnardóttir vill að hún, sem íslenskur ríkisborgari, njóti …
Edda Björk Arnardóttir vill að hún, sem íslenskur ríkisborgari, njóti vafans þegar kemur að óljósum framsalsbeiðnum sem engin gögn styðja og eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Segir hún í yfirlýsingu að íslensk yfirvöld ætli enn einu sinni að beygja sig fyrir konunginum. Ljósmynd/Aðsend

Edda Björk Arnardóttir segir að ætlun hennar hafi aldrei verið að komast undan réttvísinni og að hún hafi alltaf ætlað sér að mæta fyrir rétt í Noregi.

Hún hefur sent frá sér yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni í kjölfar þess að lögreglan á Íslandi lýsti eftir henni.

Ætli sér að mæta fyrir dóm og mun ekki reyna að komast undan afplánun

Í sumar var gefin út handtökuskipun á Eddu í Noregi en forsendur hennar eru sagðar þær að hún hafi ekki brugðist við fyrirkalli til að mæta í réttarhöld yfir sér þann 9. og 10. ágúst.

Segir Edda í yfirlýsingunni að 12 dögum fyrir áætluð réttarhöld hafi verið óskað eftir því við íslensk stjórnvöld að hún yrði handtekin og framseld.

Hún segir ekkert í gögnum frá Noregi sýna að hún hafi ekki ætlað sér að mæta fyrir dóm, þvert á móti hafi lögmaður hennar í Noregi staðfest dagsetningarnar við réttinn.

„Ég fékk því ekki einu sinni tækifæri til að framkvæma þann „glæp“ sem norsk yfirvöld vilja nú láta handtaka mig fyrir og framselja gegn mínum vilja til Noregs til að sitja þar í gæsluvarðhaldi.“

Segir Edda í yfirlýsingunni að norsk yfirvöld hafi enga ástæðu til að ætla að hún muni ekki mæta fyrir réttinn en það segist hún alltaf hafa ætlað sér.

Edda segist vera að afplána norskan refsidóm með samfélagsþjónustu nú þegar og því sé alrangt að hún muni reyna að komast undan afplánun refsidóms.

Vilja leysa málið sem fyrst og helst í skjóli nætur

Aftur á móti segist hún ekki vera tilbúin að láta handtaka sig og færa til Noregs án þess að dagsetning sé komin á ný réttarhöld.

Segir hún að yfirvöldum á Íslandi sé í lófa lagt að samþykkja framsal sitt á þeim forsendum að dagsetning réttarhalda liggi fyrir en framselji sig ekki til að sitja í gæsluvarðhaldi í óskilgreindan tíma.

Edda telur að beiðni norskra yfirvalda sé yfirvarp og þáttur í stærri áætlunum um að flytja syni hennar gegn vilja sínum til Noregs.

Þá ályktar hún einnig að íslensk yfirvöld vilji leysa málið sem fyrst og helst í skjóli nætur því hún sé með svo mikið vesen.

Segir hún ástæðu þess að hún hafi ekki gefið sig fram þá að hún vilji að íslensk yfirvöld gæti meðalhófs í afhendingu sinni.

„Heill Noregi“

„Ég vil að ég sem íslenskur ríkisborgari njóti vafans þegar kemur að óljósum framsalsbeiðnum sem engin gögn styðja og eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. En mér líður oft eins og ég sé að berjast við vindmyllur.

Og íslensk yfirvöld ætla enn einu sinni að beygja sig fyrir konunginum.

Heill Noregi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert