Sýslumaður ætlaði að „ná í“ strákana í skólann

Edda Björk Arnardóttir er með syni sína í sinni umsjá. …
Edda Björk Arnardóttir er með syni sína í sinni umsjá. Dómstólar hafa dæmt föður forræðið. mbl.is/samsett mynd

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir Eddu Björk Arnardóttur, móður þriggja drengja, í Reykjavík og á Suðurlandi í rúman mánuð frá 17. mars til 19. apríl á þessu ári.

Þá var bílnúmer á bíl sem Edda ók í vöktun í sex mánuði hjá lögreglu á Norðurlandi. Eins hugðist sýslumaður „ná í“ strákana í skólann, án árangurs.  

Þetta kemur fram i upplýsingaskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í forræðismáli Eddu og íslensks manns sem búsettur er í Noregi. Saman eiga þau fimm börn en dómstólar höfðu komist að þeirri niðurstöðu að þrjá yngstu drengina, 12 ára tvíbura og 10 ára, ætti að færa í forsjá föður þeirra í Noregi.   

Í því skyni að hafa uppi á Eddu sendi lögregla tilkynningu til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að tilkynna bæri ef til Eddu sæist utan dagvinnutíma og til sýslumannsins á Suðurlandi ef til hennar sæist þar. Hafði lögregla upplýsingar um hún hefði verið á ferð á Suðurlandi. 

Lögregla kom reglulega að heimili Eddu til að kanna hvort …
Lögregla kom reglulega að heimili Eddu til að kanna hvort hún væri þar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt um ferðir Eddu 

Á dagvinnutíma voru lögreglumenn á lögreglustöðinni í Grafarholti ítrekað sendir að heimili hennar í Grafarvogi til að kanna hvort bíll hennar væri þar. Engar heimtur urðu þó í þeim eftirlitsferðum á tímabilinu. 

Þá kemur fram að nafnlaus tilkynning hafi borist um að til Eddu hafi sést í sumarbústað á milli Skagafjarðar og Blönduóss. Mynd úr hraðamyndavél við Gauksmýri tveimur dögum áður studdi við þær upplýsingar.

Fram kemur að faðir drengjanna hafi komið til landsins snemma í apríl og lýst óánægju sinni með að ekki hefði tekist að hafa uppi á Eddu og börnunum. Sérstaklega gerði hann athugasemd við aðgerðaleysi barnaverndar í málinu.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Sóttu ekki skóla 

Á þessum tíma bar strákunum lögum samkvæmt að sækja skóla. Þeir höfðu þó ekki sést þar í nokkurn tíma. Hafði sýslumaður þá ákveðið að fara í skóla drengjanna þann 12. apríl og „ná í þá“, segir í skýrslunni.

Aftur á móti bárust þær upplýsingar frá skólastjórnendum að drengirnir hefðu ekki mætt í skólann í talsverðan tíma. 

Sama dag fór lögreglan að tveimur sumarbústöðum á Suðurlandi til að kanna hvort til Eddu og drengjanna sæist. Lögreglumenn fóru að bústöðunum og sögðu enga hreyfingu í öðrum þeirra og að ekki hefði fundist bílnúmer sem talið var tengjast Eddu.

Sýslumaður hafnaði fundi

Þegar þarna er komið sögu kemur fram að Edda hafi boðið sýslumanni til fundar við heimili sitt mánudaginn 17. apríl. Í framhaldinu var tekin ákvörðun af barnavernd og sýslumanni um að fara ekki þangað þar sem þessi fundur hefði verið á hennar forsendum.   

Fram kemur að faðir drengjanna hafi þá ítrekað óánægju sína með aðgerðaleysi lögreglu í málinu. En lögregla hafi þá talið að ekki væri ástæða til að setja meiri þunga í leitina umfram það sem þegar hafði verið gert.

Kom upp í númeralestursvél 

Eftir fylgdu frekari eftirlitsferðir við sumarbústaði í Grímsnesi og Dynskógum en án árangurs, auk þess sem lögregla fór að heimili hennar til að kanna hvort hún væri þar. Þá kom bílnúmer hennar upp í númeralestursvél í Vatnsendahverfi.

Frá 19. apríl eru ekki frekari upplýsingar um málið í skýrslu lögreglu fyrr en 19. september þegar bókun berst um að dómstóll í Noregi hafi komist að þeirri niðurstöðu að faðir drengjanna ætti að fá fullt forræði yfir þeim.

Málið kemst svo í hámæli síðastliðinn fimmtudag þegar aðfarargerð var framkvæmd við heimili Eddu. Úr varð að henni var frestað eftir langa aðgerð lögreglu og sýslumanns. Drengirnir eru enn til húsa hjá henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert