Barnsfaðirinn „sálfræðilegur einræðisherra“

Edda Björk Arnardóttir, hægra megin, ásamt verjanda sínum, Sol Elden, …
Edda Björk Arnardóttir, hægra megin, ásamt verjanda sínum, Sol Elden, í Héraðsdómi Telemark í Skien við aðalmeðferðina fyrir jól. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ákærða lýsti brotaþola sem „sálfræðilegum einræðisherra“ [n. psykisk tyrann] í daglegri umgengni hans við börnin,“ segir í dómi Héraðsdóms Telemark í Skien í Noregi yfir Eddu Björk Arnardóttur sem hlaut eins árs og átta mánaða fangelsisdóm í þar fyrir brottnám barna sinna af heimili föður þeirra í mars 2022.

Fór Truls Eirik Waale héraðsdómari því næst gegnum aðalmeðferð málsins fyrir jól, þau átta vitni og sérfræðivitni sem komið hefðu fyrir dóminn auk refsikröfu ákæruvaldsins, Lise Dalhaug saksóknara, sem fór fram á eins árs og fimm mánaða fangelsi.

Elden krafðist vægustu refsingar

Verjandi Eddu, Sol Elden, krafðist þess að refsing skjólstæðings hennar yrði hin vægasta sem lög leyfðu auk þess sem hún krafðist sýknu af skaðabótakröfu Haaheim fyrir hönd barnsföðurins sem var í fyrsta lagi þjáninga- og miskabótakrafa að ákvörðun réttarins en einnig rúmlega 35.000 norskar krónur vegna fjárhagstjóns (n. påført tap) af völdum ákærðu.

Rakti dómurinn því næst samband Eddu og barnsföður hennar sem hófst árið 2005, búsetu í Danmörku og Noregi, sambandsslit vorið 2017 og deilur um forræði sem farið var yfir að nokkru leyti hér á mbl.is 19. desember í umfjöllun um réttarhöldin sem hófust þann dag í Skien.

Fór héraðsdómari yfir brottnám drengjanna af heimili þeirra og föður þeirra 28. mars 2022 í Bamble í Telemark, skammt suður af Skien. „[Edda] lét í veðri vaka að drengirnir yrðu hjá henni og að hún hefði ekki í hyggju að senda þá til Noregs á ný,“ segir í dóminum sem rekur því næst að Edda hafi vísað því á bug að hún hefði gerst sek um stórfellda vanrækslu (n. grov omsorgsunndragelse) gagnvart börnum sínum, eins og henni var borið á brýn og varðar við 261. grein norsku hegningarlaganna. Viðurkenndi hún hins vegar minni háttar vanrækslu.

Héraðsdómur Telemark í Skien þar sem málið var flutt og …
Héraðsdómur Telemark í Skien þar sem málið var flutt og dæmt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Spurningin um stórfellda vanrækslu

Rekur dómurinn þá þau atriði sem hann telur vega þyngst varðandi hvort Edda hafi gerst sek um stórfellda vanrækslu samkvæmt lögunum, bága tannheilsu drengjanna auk meltingarfæravandamála eins þeirra. Staðan hafi hins vegar verið mun betri í Noregi að sögn vitna auk þess sem drengirnir hafi lýst því yfir í samtölum við fagmanneskju að vilji þeirra stæði til þess að búa hjá föður sínum.

Ver dómari því næst löngu lesmáli í að gagnrýna aðkomu íslenska sálfræðingsins sem bar vitni fyrir dómi og lýkur með niðurstöðunni „rétturinn telur augljósa annmarka á starfi [...] sem að mjög litlu leyti tók tillit til hugsanlegra rangfærslna við framburð drengjanna [í samtölum við sálfræðinginn]“.

Lagði dómari til grundvallar framburð annars sálfræðings sem útskýrði hvernig börn höguðu framburði sínum fyrir fagfólki í skugga deilna foreldra með því að taka málstað sterkara, og nálægara, foreldrisins þar sem barnið finni sig knúið til að „bregðast“ veikara, og fjarlægara, foreldrinu til þess að komast af. Þar með snúist barnið á sveif með þeim deiluaðila sem það upplifi sem sterkari aðilann í deilunni.

Mál Eddu Bjarkar hefur vakið gríðarlega athygli á Íslandi og …
Mál Eddu Bjarkar hefur vakið gríðarlega athygli á Íslandi og töluverða í Noregi þótt norskt fjölmiðlafólk fyllti ekki þingsalinn í Skien í desember, þangað komu þrír norskir blaðamenn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Óþekkti aðstoðarmaðurinn

„Enn fremur leggur rétturinn það til grundvallar að brottnámið var vel skipulagt og bar einkenni atvinnumennsku. Ákærða leigði einkaflugvél sem var klár til að taka á loft um leið og búið væri að sækja drengina. Eins hafði hún útvegað sér fölsk ferðaskilríki. Sjálft brottnámið var vel skipulagt og yfir vafa hafið að hún átti sér að minnsta kosti einn aðstoðarmann í Noregi.

Lögreglunni hefur ekki tekist að afhjúpa hver þessi aðili er og ákærða neitar að svara spurningum um aðstoðarmann. Þar með telur rétturinn einsýnt að um stórfellda vanrækslu hafi verið að ræða í skilningi 261. greinar. Auk þess telur rétturinn ljóst að ákærða aðhafðist af ásetningi, einnig hvað varðar aðrar kringumstæður sem styðja að um stórfellda vanrækslu hafi verið að ræða,“ segir í rökstuðningi dómsins.

Dæmdi Waale Eddu að lokum til fyrrgreindra 20 mánaða í fangelsi, óskilorðsbundið, greiðslu 75.000 norskra króna til barnsföður síns í miskabætur og 35.047 króna vegna fjárhagstjóns, samtals 110.047 krónur sem samsvarar 1.458.123 íslenskum krónum. Þá var Eddu gert að greiða 10.000 krónur, 132.500 íslenskar, í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert