Þrennt enn til rannsóknar í máli Eddu

Grímur Grímsson segir þrennt enn með stöðu sakbornings. Systir Eddu …
Grímur Grímsson segir þrennt enn með stöðu sakbornings. Systir Eddu var handtekin í Garðabæ.

Þrennt er enn til rannsóknar í tengslum við að hafa hýst þrjá drengi sem leitað var að í tengslum við mál Eddu Bjarkar Arnardóttur og íslensks föðurs þeirra sem búsettur er í Noregi. 

Þau sem liggja undir grun í málinu eru systir Eddu, lögmaður hennar og sambýlismaður.

Hafa þau réttarstöðu sakbornings, grunuð um brot á 193.grein hegningarlaga, sem snýr að því að halda börnum frá foreldrum eða réttum umsjáraðilum. Viðurlögin eru frá því að vera sekt yfir í að vera 16 ára fangelsi. 

Enn að safna gögnum 

Grímur Grímsson hjá miðlægri deild lögreglunnar segir að lögreglan sé enn að safna gögnum í málinu.

Ákæruvaldið er hjá héraðssaksóknara og enn gæti verið nokkuð í það að tekin verði ákvörðun um það hvort gefnar verði út ákærur eða málið fellt niður eftir atvikum.

„Það eru þrír sem hafa réttarstöðu sakbornings í málinu,“ segir Grímur. 

Fundust á kaffihúsi 

Málið á rætur sínar að rekja til þess þegar lögregla leitaði þriggja drengja Eddu og íslensks föðurs þeirra búsettum í Noregi. Maðurinn hafði fengið forræði yfir drengjunum þremur samkvæmt úrskurði norsks dómstóls. Þeir eru 12 ára tvíburar og 10 ára.

Eftir að Edda var flutt til Noregs vegna dómsmáls þar voru drengirnir í umsjá fólks á hennar vegum á Íslandi. Leitaði lögregla drengjanna til að færa í umsjá föður þeirra í Noregi.

Fundur drengjanna og handtökur í framhaldinu at­vikuðust þannig að óein­kennisklædd­ir lög­reglu­menn stöðvuðu bíl syst­ur Eddu skömmu eft­ir að hún og dreng­irn­ir yf­ir­gáfu kaffi­hús í Garðabæ þann 21. desember.

Systir Eddu var handtekin á staðnum. Skömmu síðar var lögmaður Eddu hand­tek­inn á lög­manns­stofu sinni sem og sambýlismaður Eddu. Þau liggja öll undir grun vegna brots á áðurnefndri 193. grein almennra hegningarlaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert