„Börnin munu nú njóta verndar í Noregi“

Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, kveður skjólstæðing …
Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, kveður skjólstæðing sinn gleðjast yfir niðurstöðu Héraðsdóms Telemark í Skien í dag. Samsett mynd

„Skjólstæðingur minn gleðst yfir dóminum sem er nákvæmur og byggir á heildarmynd sönnunargagna málsins,“ segir Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, en Edda hlaut í dag eins árs og átta mánaða fangelsi fyrir Héraðsdómi Telemark í Skien í Noregi fyrir að nema syni sína á brott frá réttmætum forsjáraðila þeirra, föðurnum, og færa þá til Íslands þar sem drengirnir voru faldir um langa hríð.

„Skjólstæðingur minn er þeirrar skoðunar að vissir íslenskir fjölmiðlar ættu að líta sér nær fyrir einhliða umfjöllun um mál móður sem áður hefur hlotið dóm fyrir barnsrán – umfjöllun sem fyrst og fremst hefur komið niður á brottnumdum börnum og tafið fyrir að þeim verði komið í réttar hendur eins og Haag-sáttmálinn frá 1980 gerir ráð fyrir,“ heldur lögmaðurinn áfram.

Áhyggjur sem stungu í stúf

Kveður hann skjólstæðinginn enn fremur sáttan við gagnrýni Truls Eirik Waale héraðsdómara í garð íslensks sálfræðings sem bar vitni við réttarhöldin og ræddi við börnin án samþykkis og án þess að faglegum bakgrunni væri til að dreifa, rétt eins og þar væri um að ræða pöntun frá móðurinni og lögmanni hennar.

Stjórnendur skóla drengjanna þriggja á Íslandi hafi einnig látið áhyggjur sínar í ljós, „eitthvað sem stingur í stúf við þá glansmynd sem dæmda reyndi að draga upp“, segir Haaheim.

„Börnin munu nú njóta verndar í Noregi svo þeim verði ekki rænt þriðja sinni – hvorki fyrir atbeina dæmdu né aðstoðarfólks. Ég get ekki tjáð mig í smáatriðum um þær ráðstafanir sem gripið verður til, en margir munu koma að því að búa svo um hnútana að börnin njóti öryggis og næðis í framtíðinni,“ segir Haaheim að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka