Afbrigðileg hegðun á borði lögreglu

Norðlingaskóli og nágrenni hans.
Norðlingaskóli og nágrenni hans. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Tilkynning um afbrigðilega hegðun hefur borist lögreglunni í tengslum við grunsamlegar mannaferðir við Norðlingaskóla í gær.

Þetta staðfestir Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Maður með ljósa hárkollu var sagður hafa fylgst grannt með ferðum nemenda. Íbúi lét skólastjórnendur vita af karlmanni sem fylgdist með ferðum nemenda á milli skólabygginga.

Málið verður skoðað

Skólastjóri Norðlingaskóla sagði mbl.is frá því að gær að skólinn hefði haft samband við lögreglu vegna málsins og að íbúinn ætlaði að gera slíkt hið sama.

„Það verður skoðað hvað er á bak við þetta, hvort þetta á við rök að styðjast eða hvort einhver hafi verið að fíflast. En auðvitað tökum við öll svona mál alvarlega,” segir Valgarður, spurður út í málið.

Hann kveðst ekki muna eftir því að áður hafi verið kvartað yfir grunsamlegum mannaferðum í kringum skólann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert