Ekki vitað hvað þarf til svo kvika fari af stað

Land hefur risið um 22 sentimetra síðan 11. nóvember.
Land hefur risið um 22 sentimetra síðan 11. nóvember. mbl.is/Hákon

Enn eru um 13 til 14 sentimetrar í að land við Svartsengi nái þeirri hæð sem það var í þegar kvikan hljóp austur undir Grindavík og í kvikuganginn við Sundhnúkagígaröðina.

Þó hægst hafi á landrisi við Svartsengi þykir land þar rísa mjög hratt eða um einn sentimetra á dag. 

Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofu Íslands í jarðskorpuhreyfingum, segir vísindamenn í raun ekki vita nákvæmlega hvað þurfi til svo kvikan fari aftur á hreyfingu. Þá sé með öllu óvitað í hvaða átt kvikan gæti farið.

Kvika streymir upp undir Svartsengi og útskýrir Benedikt að þó landris mælist víða þar í kring sé ekki kvika undir öllu því svæði. Kvika sé heldur á frekar afmörkuðu svæði norðvestan við Þorbjörn.

Við Svartsengi mælist landris, frá 11. nóvember, um 22 sentimetrar. Mælir við Norðurljósaveg, sem komið var fyrir 11. nóvember, sýnir 19 sentimetra landris.

GPS-mælir við Svartsengi sýnir landris og landsig.
GPS-mælir við Svartsengi sýnir landris og landsig. Graf/Veðurstofa Íslands

Hvar eru skjálftarnir?

Hægst hefur á jarðskjálftavirkni á svæðinu svo um munar. Aðeins litlir skjálftar undir einum að stærð mælast núna fyrir utan stöku skjálfta sem mælast yfir tveimur eða þremur. Spurður af hverju landrisinu fylgi ekki jarðskjálftar, eins og áður en stóru jarðskjálftarnir urðu í Grindavík 10. nóvember, útskýrir Benedikt að jarðskorpan sé að jafna sig. 

Líkir hann þessu við blöðru. Hún sé ekki orðin nógu útþanin til þess að það fari að reyna á og valda skjálftum. Þegar jarðskorpan verður komin að þolmörkum og landrisið orðið meira, þá muni skjálftar að öllum líkindum hefjast á ný. 

„En við vitum samt ekkert hvað þetta svæði þolir, eða hversu mikið landris þarf í raun til þess að jörð fari að skjálfa á ný,“ segir Benedikt. 

Það á einnig við um kviku, ekki sé vitað hvort kvikusyllan þurfi að fyllast á ný svo úr henni hlaupi kvika. 

GPS-mæli við Norðurljósaveg var komið fyrir 11. nóvember. Grafið sýnir …
GPS-mæli við Norðurljósaveg var komið fyrir 11. nóvember. Grafið sýnir landris síðan þá. Graf/Veðurstofa Íslands

Gæti hlaupið í aðra átt

Spurður hvort kvikan gæti leitað í aðra átt, til dæmis í vesturátt og út í Eldvörp, segir hann að það þurfi ekkert endilega að vera að kvikan muni aftur hlaupa undir Grindavíkurveg og út í Sundhnúkagíga. 

Það sé þó það líklegasta í stöðunni, að hún fari aftur í austur, því að þar sé minnsta fyrirstaðan. 

Virkjun HS Orku í Svartsengi.
Virkjun HS Orku í Svartsengi. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert