Íbúðir í rekstri í lægri skattflokki

Fjöldi íbúða í Bríetartúni 9 eru leigðar til ferðamanna.
Fjöldi íbúða í Bríetartúni 9 eru leigðar til ferðamanna. Samsett mynd

Allar íbúðir í húsunum Bríetartúni 9 og 11 eru í fasteignaskattaflokki A, ef frá er talið verslunarrýni á jarðhæð í Bríetartúni 11 sem er í skattflokki C, skv. svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Tilefni fyrirspurnarinnar er að í húsunum tveimur virðist rekin gististarfsemi á vegum SIF Apartments o.fl. aðila. Fyrrgreint félag er með þrettán skráð rekstrarleyfi fyrir íbúðir í húsunum báðum, en sjö leyfi hafa verið gefin út vegna annarra íbúða í húsunum sem eru í eigu nokkurra aðila.

Enda þótt svo sé, þá sýnir mynd sem birtist í Morgunblaðinu sl. mánudag að í húsunum báðum eru 29 íbúðir merktar félaginu SIF Apartments, en rekstrarleyfi eru um helmingi færri.

Munurinn á fasteignasköttum í A- og C-flokki er sá að í A-flokk fellur íbúðarhúsnæði og getur álagningarprósentan verið frá 0,5% til 0,625% af fasteignamati. Í C-flokk fellur atvinnuhúsnæði, þó ekki opinberar byggingar, og getur álagningarprósentan í þeim flokki verið á bilinu 1,32% til 1,65% af fasteignamati. Skv. framansögðu geta fasteignaskattar af atvinnuhúsnæði því verið ríflega þrefalt hærri en af íbúðarhúsnæði.

Í svari frá Reykjavíkurborg við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að munur sé gerður á heimagistingu og rekstrarleyfisskyldri útleigu íbúða í atvinnuskyni. Samkvæmt lögum sé heimagisting gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Gististaðir séu aftur á móti staðir þar sem boðin er gisting að hámarki í 30 daga samfleytt í senn gegn endurgjaldi.

Hvað varðar íbúðir SIF Apartments sem spurst var fyrir um, þá séu þær eðli málsins samkvæmt ekki heimagisting, en þar eru útgefin rekstrarleyfi í flokki II, gististaður án veitinga. Húsnæði þar sem rekin er rekstrarleyfisskyld atvinnustarfsemi flokkist sem atvinnuhúsnæði og taki álagning fasteignaskatta mið af því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert