„Geri allt sem ég get til að vernda systur mína“

Ragnheiður Arnardóttir, systir Eddu Bjarkar, bíður nú við fangelsið ásamt …
Ragnheiður Arnardóttir, systir Eddu Bjarkar, bíður nú við fangelsið ásamt hópi stuðningsfólks Eddu, og segist ætla að gera allt sem hún geti til að vernda systur sína. mbl.is/Þorsteinn

Ragnheiður Arnardóttir, systir Eddu Bjarkar Arnardóttur, sem nú situr í varðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði í tengslum við forsjárdeilu við barnsföður sinn, segir að sá hópur sem nú er staddur við fangelsið muni gera allt sem hann geti til að tefja og helst koma í veg fyrir að systir hennar verði færð úr landi nú í nótt eða á morgun. Hún segist tilbúin að láta handtaka sig vegna málsins.

Enn fjölgar í hópi stuðningsfólks Eddu við fangelsið, en líkt og mbl.is greindi frá var Edda upplýst í kvöld um að til stæði að flytja hana úr landi í nótt til Noregs. Eru nú yfir 20 bifreiðar við fangelsið og hefur þeim verið lagt þannig að ekki er hægt að keyra að fangelsinu.

Edda hafði kært úrskurðinn til Landsréttar og sagði lögmaður hennar við mbl.is að hann ætti von á niðurstöðu Landsréttar á morgun. Ragnheiður segir að allt verði gert til að koma í veg fyrir framsal systur sinnar fyrr en málið verði klárað fyrir öllum dómstigum hér á landi.

Rólegt er nú á Hólmsheiði, en kalt í veðri. Mínus gráður og talsverður garri, eða yfir 10 m/s.

Ragnheiður segir í samtali við mbl.is á staðnum að hún hafi ekki átt von á þetta mörgum í nótt. „Við kölluðum út alla sem okkur datt í hug og settum á Facebook svo sem flestir myndu mæta hingað, en gerðum kannski ekki ráð fyrir mikilli mætingu á fimmtudagsnóttu. Þetta kom okkur skemmtilega á óvart.“

Lögreglan hefur í tvígang keyrt framhjá og rætt stuttlega við stuðningsfólk Eddu. Ragnheiður segir að í fyrra skiptið hafi þau verið beðin um að færa sig, en lögreglan svo farið af vettvangi. Í seinna skiptið hafi þau verið spurð hvað þau væru að gera. Einn í hópnum hafi svarað því til að þau væru að skoða norðurljósin, en þau hafa dansað yfir Hólmsheiðinni það sem af er nóttu.

„„Þau létu það bara duga og keyrðu í burtu. Þau eru líklega bara að fylgjast með hvað við erum að gera og hvort við séum með einhver ólæti, en við erum bara með friðsamleg mótmæli. Við ætlum ekki að halda vöku fyrir föngunum. Okkar markmið er að vekja athygli á þessu máli og ef við getum reyna að koma í veg fyrir að hún verði framseld áður en málið fái að klára öll dómstig hér,“ segir hún.

Ragnheiður hafði heimildir fyrir því að stefnt væri að því að færa Eddu úr fangelsinu um klukkan fimm í nótt. Spurð við hverju megi búast þá segir hún: „Við reynum okkar besta að tefja og koma í veg fyrir það. Við getum ekki gert meira en það. Við erum ekki að fara í skemmdarverk eða annað, en við viljum reyna að koma í veg fyrir að valdið sé misnotað á þennan hátt.“

Spurð hvað hún ætli að gera ef lögreglan hótar að handtaka hana verði hún ekki við fyrirmælum lögreglu segir Ragnheiður: „Ég geri allt sem ég get til að vernda systur mína fyrir þessu. Ég get samt ekki talað fyrir aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert