Kom flatt upp á okkur

Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðis.
Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðis. mbl.is//Sigurður Bogi

Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar í Hveragerði, segir að það skorti allt samráð frá sveitarfélaginu Ölfus. Hveragerðisbær og íbúar hafi ekki verið spurðir hvort þeir vilji fá virkjun í Ölfusdal.

„Hveragerðisbær fékk afrit af bréfi sveitarfélagsins Ölfus til Orkustofnunnar í febrúar og við tókum það fyrir í bæjarráði í byrjun mars og bókuðum líkt og við gerðum í gær. Í þessu bréfi var ekki verið að bjóða upp á samráð heldur að tilkynna að Ölfus hefði áhuga á að skoða virkjunarmöguleika í Ölfusdal. Það vantar allt samráð og spyrja okkur hvort við viljum þetta. Það hefur enginn spurt okkur að því hingað til,“ segir Njörður við mbl.is.

Í bókun bæjarráðs Hveragerðis segir meðal annars að Hveragerðisbær leggist gegn því að rannsóknarleyfi verði veitt í Ölfusdal fyrr en náið og eðlilegt samráð hefur verið haft við sveitarfélagið og íbúa þess um þessa framkvæmd.

Tilbúin í samtal og samráð

Njörður segir að bæjarstjórinn í Hveragerði, sem er Geir Sveinsson, hafi rætt við bæjarstjórann í Ölfusi í september.

„Samkvæmt þeim heimildum sem ég hef kom ekki fram á þeim fundi að það ætti að fara þessa leið. Það kom því mjög flatt upp á okkur þegar heyrðum af þessum fréttamannafundi,“ segir Njörður en á fréttamannafundinum kom fram að Orkuveitan, sveitarfélagið Ölfus og Orkufélagið Títan, sem er í eigu Ölfuss, ætla að sækja saman um rannsóknarleyfi um nýtingu jarðhita í Ölfusdal ofan Hveragerðis.

Njörður segir að Hveragerðisbær sé tilbúinn í samtal og samráð þar sem Hveragerðisbær geti haft einhver áhrif á niðurstöðu málsins.

„Ég heyri í fréttum að Elliði sé búinn að bjóða upp á samtalið og Orkuveitan hefur haft samband við okkur. Ég reikna fastlega með því að við munum taka því boði og ræða við þessa aðila. Þar munum við koma okkar sjónarmiðum fast á framfæri. Okkar sjónarmið og ég held allra íbúa í Hveragerði er að við eigum að hafa mest um þessa ákvörðun að segja vegna þess að hún hefur mest áhrif á okkur.“

Njörður segist ekki hafa góða reynslu af Hellisheiðarvirkjun og segir að manngerðir jarðskjálftar hafi gert íbúum lífið leitt og sjálfur segist hann heyra mikinn hávaða af borholunum á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert