Kvika talin fóðra kvikuganginn og nýr kafli hafinn

Varnargarðar hafa verið lagðir í kringum Svartsengi.
Varnargarðar hafa verið lagðir í kringum Svartsengi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikan sem safnast nú fyrir undir Svartsengi, og veldur þar hröðu og stöðugu landrisi, er talin fóðra kvikuganginn sem liggur undir Sýlingarfelli og Hagafelli.

Þar er skjálftavirknin nú mest, en áfram dregur úr henni þó. Mælast nú mun færri og smærri skjálftar heldur en síðustu vikur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Horft yfir hraunbreiðu og að Þorbirni, sem rís suðaustur af …
Horft yfir hraunbreiðu og að Þorbirni, sem rís suðaustur af Sýlingarfelli. Þar á milli liggur Grindavíkurvegur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atburðarásinni ekki lokið

Segir þar að enn mælist aflögun á stöðvum nálægt kvikuganginum en talið er að það sé vegna landriss sem er að eiga sér stað við Svartsengi.

Tekið er fram að atburðarásinni, sem hófst þann 25. október með mikilli skjálftavirkni og náði toppi að kvöldi 10. nóvember þegar 15 kílómetra kvikugangur myndaðist, sé ekki lokið.

„En segja má með nokkurri vissu að nýr kafli sé hafinn þar sem að sama atburðarás getur endurtekið sig,“ segir í tilkynningunni.

Á þessu stigi sé erfitt að segja til um hvenær næsta kvikuinnskot muni eiga sér stað og hvort það komi á svipuðum slóðum. Veðurstofan haldi áfram að vakta svæðið gaumgæfilega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert