„Þeir slitnuðu í átökum“

Sigurþór sýnir streng sem fór í sundur.
Sigurþór sýnir streng sem fór í sundur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmenn HS Veitna hafa undanfarið verið að störfum í Grindavík við að gera við rafmagnsstrengi og hitaveitulagnir sem fóru í sundur í jarðhræringunum í bænum.

Þeir Sigurður Sigmundsson og Sigurþór Sævarsson voru að gera við 36 kílóvolta rafmagnsstrengi sem liggja á milli aðveitustöðva þegar blaðamann og ljósmyndara bar að garði í gær.

„Þeir slitnuðu í átökum,“ segir Sigurþór og sýnir blaðamanni strengi sem höfðu brunnið og farið í sundur. „Þetta er föndur.“

Einn dag tekur að klára hvern enda á rafmagnsstrengjunum, sem eru þrír talsins. Félagar þeirra voru á sama tíma að gera við 11 þúsund volta streng sem hafði slitnað annars staðar í bænum.

Sigurþór, til vinstri, og Sigurður að störfum.
Sigurþór, til vinstri, og Sigurður að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smeykir í einni holu

Aðspurðir segjast þeir ekki vera smeykir við að vera að störfum þrátt fyrir að hættustig almannavarna ríki í Grindavík.

Þeir nefna þó að annars staðar í bænum, skammt frá kirkjugarðinum, hafi þeir verið staddir ofan í þriggja metra djúpum skurði. Bílar keyrðu framhjá og við það hrundi úr kantinum niður í holuna. „Það er kannski eina skiptið sem manni hefur fundist maður vera í hættu.“

Sigurður og Sigurþór, sem búa báðir í Reykjanesbæ, búast við mikilli vinnu fram undan í bænum, þó að erfitt sé að fullyrða um það.

Rafmagnsstrengir geti tognað eða slitnað á næstunni eða jafnvel eftir einhver ár vegna jarðhræringanna.

Lagfærðu hitaveitulögn

Blaðamaður og ljósmyndari litu einnig við í Efstahrauni þar sem fleiri starfsmenn HS Veitna, þar á meðal Nikolai Sófus Berthelsen, voru að störfum við að lagfæra hitaveitulögn sem hafði farið í sundur.

Grafa sá um að moka frá til að hægt væri að komast að lögninni og gekk viðgerðin prýðilega. 

Nikolai Sófus Berthelsen.
Nikolai Sófus Berthelsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert