Kvikan getur varla verið eina skýringin

Á meðan varnargarðar rísa þá rís jörðin undir þeim sömuleiðis. …
Á meðan varnargarðar rísa þá rís jörðin undir þeim sömuleiðis. Og þó hún rísi vissulega hægar en mannanna verk þá er mátturinn að baki mun meiri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þá byrjaði þessi nýi kafli 10. nóvember. Hann er ekkert að byrja núna.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, um það sem fram kom í tilkynningu Veðurstofu Íslands í gær.

Sagði þar að segja mætti að nýr kafli væri hafinn og að sama atburðarásin gæti endurtekið sig. Var í því tilliti vísað til skjálftavirkninnar sem leiddi til myndunar 15 kílómetra langa kvikugangsins við Svartsengi og Grindavík.

Aflögunarmælingar jarðskorpunnar í millimetrum talið á Y-ás, mánaðardagar á X-ás.
Aflögunarmælingar jarðskorpunnar í millimetrum talið á Y-ás, mánaðardagar á X-ás. Graf/Veðurstofa Íslands

Landið seig mun meira

Greint var frá því á mbl.is í gær að landrisið við virkjunina í Svartsengi héldi stöðugt áfram af miklum hraða. Und­an­farna daga hef­ur land þannig risið um einn senti­metra á dag.

En athygli vekur að landið seig mun meira þann 10. nóvember en sem nam því landrisi sem tengt hafði verið við kvikusöfnun vikurnar þar á undan.

Þetta er bersýnilegt á meðfylgjandi grafi, en á því sést sömuleiðis hvernig landið nálgast nú eðlilegt horf ef svo má segja. Ekki er þó ástæða til að ætla að landrisið muni þar nema staðar.

Varnargarðar hafa risið hratt í kringum virkjunina sem kennd er …
Varnargarðar hafa risið hratt í kringum virkjunina sem kennd er við Svartsengi, eftir að ráðist var í framkvæmdirnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigið hefði átt að fara niður á núllpunkt

„Að þetta sé allt kvikutengt er erfitt að skilja. Kvikan sem kom inn fyrir 10. nóvember er áhrifavaldurinn og hún er það sem býr þetta allt til,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

„Þú getur ekki tekið meiri kviku út úr þessari geymslu heldur en þú ert búinn að setja inn í hana. Þá hefði sigið átt að fara niður á núllpunkt. Það er erfitt að skýra þetta eingöngu með kviku og hreyfingum sem tengjast kvikufærslu.“

Hann heldur áfram og ítrekar að líta megi svo á að annar kafli hafi hafist þann 10. nóvember, þegar mikil kvikufærsla eða mikið kvikuhlaup verður.

„Síðan byggist upp þessi þrýstingur og þegar þrýstingurinn nær ákveðnu marki í þessu nýja hólfi, sem er að myndast núna með þessu hraða landrisi, þá brestur bergið og þá getur kvika farið að flæða eftir sprungunni.“

Reyna að spá í eitthvað sem við sjáum ekki

Þarf landrisið að fara umfram það sem það hafði náð þann 10. nóvember, þegar kvikuhlaupið varð, til að eitthvað gerist?

„Ef þetta væri allt saman kvika, og landrisið væri vegna kvikuhreyfinga, þá myndi ég segja já. En þar sem ég tel þetta sambland af tektónískum hreyfingum og kvikusöfnun þá er erfiðara að segja til um hvenær þetta fer af stað,“ svarar Þorvaldur.

„Þetta gæti farið af stað þegar það hefur náð sömu hæð og það náði og það gæti líka farið af stað fyrr og líka síðar. Við vitum ekki nákvæmlega hver staðan er í þessu geymsluhólfi og hvar veikleikarnir liggja. Við erum að reyna að spá í eitthvað sem við sjáum ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert