Heimsækir ekki ríki þar sem samkynhneigð er refsiverð

Ragnhildur Sverrisdóttir hefði ekki þegið boð á COP 28-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hefði það borist. Hún heimsækir ekki ríki þar sem samkynhneigð er refsiverð.

Um þessar mundir eru 84 Íslendingar staddir í Dúbaí þar sem 28. ráðstefna Sameinuðu þjóðanna gegn loftslagsvá er haldin.

Þetta kemur fram í fjörlegu samtali á vettvangi Spursmála þar sem Ragnhildur er gestur ásamt Snorra Mássyni ritstjóra Ritstjóra.

„Það stóð nú aldrei til að ég færi. En ef mér hefði verið boðið þá hefði ég afþakkað það því maður verður nú að hafa einhver lágmarksprinsipp í lífinu og mitt er að fara ekki til ríkja þar sem samkynhneigð er beinlínis bönnuð og refsiverð. Mér finnst það ekki stórt prinsipp heldur lágmarkið sem maður verður að styðjast við. Þannig að ég hefði afþakkað Dúbaí ef það hefði staðið til,“ útskýrir Ragnhildur.

En finnst þér ekki orka tvímælis að halda ráðstefnu í slíku ríki, sem heldur uppi slíkum viðhorfum og er auk þess eitt af fremstu olíuríkjum heimsins?

„Ég ætla mér nú ekki þá dul að menn fari að breyta ráðstefnuhaldi vegna þess að ég er pirruð út af mannréttindamálum. Þetta svo sem kom upp út af HM og fólk er greinilega tilbúið að líta fram hjá svona smotteríi eins og mannréttindum og kannski er þetta hárréttur staður af því að þetta er olíuríki til að taka næstu skref í loftslagsmálum, en ég verð ekki þar.“

Fyrsti þáttur af Spursmálum fór í loftið á föstudag. Ragnhildur …
Fyrsti þáttur af Spursmálum fór í loftið á föstudag. Ragnhildur Sverrisdóttir og Snorri Másson komu og ræddu fréttir vikunnar. mbl.is/Brynjólfur Löve

Kítlar hégómann

Snorri Másson heldur að fólk láti freistast til að mæta á þennan stað, hvað sem líður umræðu um mannréttindi.

„Ætli það kitli ekki of mikið hégóma fólks að vera boðið á svona virðulega ráðstefnu til að fara að neita því af svona prinsippástæðum. Ég heyrði að þetta væri síðasta tækifærið. Þannig að ég vona að þeir nái samstöðu. Við erum búin að vera lengi á síðasta séns með þessi mál. Sem ég trúi alveg. Kannski er allt að fara til fjandans. En það fer að dragast þrótturinn úr þessum „síðastatækifæris-viðvörunum“,“ segir Snorri.

Þáttinn má sjá í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert