Landið nú risið hærra en fyrir skjálftahrinuna

Þorvaldur telur landris af völdum bæði tektónískra hreyfinga og kvikusöfnunar.
Þorvaldur telur landris af völdum bæði tektónískra hreyfinga og kvikusöfnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landið við Svartsengisvirkjunina hefur nú risið hærra en það var áður en skjálftahrinan hófst 25. október, sem náði hámarki með myndun kvikugangsins 10. nóvember og olli þá gríðarmiklu og hröðu landsigi.

Þetta sýna GPS-mælingar Veðurstofunnar, en af þeim má ráða að landið hafi risið upp fyrir þennan svokallaða núllpunkt á síðustu tveimur dögum.

Aflögunarmælingar jarðskorpunnar í millimetrum talið á Y-ás, mánaðardagar á X-ás.
Aflögunarmælingar jarðskorpunnar í millimetrum talið á Y-ás, mánaðardagar á X-ás. Graf/Veðurstofa Íslands

Blanda af tektónískum hreyfingum og kvikusöfnun

Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, hefur sagt í samtali við mbl.is að hann telji að landrisið á svæðinu geti verið blanda af tektón­ísk­um hreyf­ing­um og kviku­söfn­un.

Í Morgunblaðinu í gær sagði Þorvaldur að jarðhrær­ing­arn­ar af­drifa­ríku, sem áttu sér stað föstu­dag­inn 10. nóv­em­ber, kynnu einnig að hafa stækkað aðfærsluæð kvik­unn­ar frá dýpra hólfi og yfir í það grynnra.

Af því myndi leiða að meiri kvika flæðir ofar í jarðskorp­una nú en áður.

Land reis hratt en rís nú hraðar

Fimmtudaginn 30. nóv­em­ber vantaði um þrjá senti­metra í að landið næði þeirri stöðu sem það var í 25. októ­ber. Þá hófst jarðskjálfta­hrina á Reykja­nesskaga.

Í kjöl­far fyrstu skjálft­anna reis landið hratt, en þó ekki á jafn mikl­um hraða og það hef­ur gert eft­ir at­b­urðina 10. nóv­em­ber. Þá var landrisið rúm­lega tíu senti­metr­ar á sex­tán dög­um.

Mikið land­sig varð í kjöl­far þess að kvika hljóp frá Svartsengi aust­ur und­ir Grinda­vík­ur­veg og í Sund­hnúkagígaröðina. Þá seig land um 35 senti­metra.

Eft­ir 12. nóv­em­ber tók land að rísa á ný og hefur hraðinn verið metinn um tvö­falt meiri en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert