Framganga Ragnars gagnrýnd

Frá mótmælunum síðastliðinn fimmtudag.
Frá mótmælunum síðastliðinn fimmtudag. mbl.is/Eyþór

Gildi lífeyrissjóður hefur sent stjórn VR formlega kvörtun vegna framgöngu og hegðunar Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR gagnvart stjórnendum og almennu starfsfólki lífeyrissjóðsins í kjölfar mótmæla sem áttu sér stað á skrifstofu sjóðsins á fimmtudag.

Markmið mótmælanna var að þrýsta á lífeyrissjóðina um að koma betur til móts við Grindvíkinga.

Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri Gildis segir í samtali við Morgunblaðið að þeir starfsmenn sem urðu vitni að mótmælunum hafi upplifað vanlíðan og óþægindi. Með bréfinu vildi sjóðurinn því gera grein fyrir framgöngu Ragnars, enda langflestir starfsmenn Gildis félagsmenn í VR.

„Fyrst og fremst er þetta bréf sent stjórn VR til að vekja athygli á því að formaðurinn þeirra sé að vinna gegn hagsmunum félagsmanna með því að skipuleggja mótmæli inni á skrifstofu vinnustaðarins þar sem félagsfólkið hans starfar,“ segir Árni. Ragnar og hópur manna komu að sögn Árna inn á skrifstofuna með gjallarhorn.

mbl.is/Eyþór

Í bréfinu segir að Gildi hafi í kjölfar mótmælanna þurft að virkja EKKO-áætlun lífeyrissjóðsins. Áætlunin hefur þann megintilgang að láta ekki ofbeldi eða áreitni viðgangast á vinnustað, en í bréfinu segir að starfsmenn hafi upplifað að þeim hafi verið ógnað á vinnustaðnum og orðið fyrir andlegu ofbeldi.

Þá segir að starfsmenn sjóðsins upplifi að Ragnar hafi verið einn af hvatamönnum þess að mótmælin færu ekki fram með friðsamlegum hætti. Árni segir það skjóta skökku við að formaðurinn sýni slíka hegðun enda lúti áherslur stéttarfélagsins að því að berjast gegn ofbeldi og áreitni á vinnustað. Þetta komi honum þó ekki á óvart þar sem Ragnar hafi hvatt til neikvæðrar umræðu og jafnvel hótana með færslum sínum um lífeyrissjóðina á samfélagsmiðlum. Með bréfinu biðlar Gildi þannig til VR um að grípa til viðeigandi aðgerða til að tryggja hagsmuni félagsmanna, sem stjórnendur sjóðsins telja Ragnar hafa brotið gróflega gegn.

Samkvæmt heimildum blaðsins er Ragnari kunnugt um erindið og hafnar hann ásökununum alfarið.

mbl.is/Eyþór
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert