Segja Ragnar Þór ekki hafa farið fram með offorsi

Frá mótmælunum á fimmtudaginn.
Frá mótmælunum á fimmtudaginn. mbl.is/Eyþór

Formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur og formaður sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur vísa því til föðurhúsanna að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi farið fram með offorsi í mótmælum við skrifstofu lífeyrissjóðsins Gildis fyrir helgi vegna lánamála Grindvíkinga.

Í tilkynningu frá Herði Guðbrandssyni, formanni Verkalýðsfélags Grindavíkur, og Einari Hannesi Harðarsyni, formanni sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, segja þeir að Ragnar Þór hafi komið fram á málefnalegan og kurteisan hátt.

mbl.is/Eyþór

„Það er lýðræðislegur réttur okkar að mótmæla, sá réttur verður ekki tekinn af okkur, ekki einu sinni af skrifstofufólki lífeyrissjóðanna; starfsfólki sem á að vinna að og tryggja hagsmuni sjóðfélaga sinna,” segja þeir í tilkynningunni.

„Við Grindvíkingar sýndum tilfinningar á mótmælunum, og töluðum í gjallarhorn til framkvæmdastjóra Gildis. Við biðjumst velvirðingar á að því að mótmælin hafi valdið starfsfólki óþægindum,” segir þar einnig.

Tilkynningin í heild sinni:

„Fimmtudaginn 30. nóvember boðuðu Verkalýðsfélag Grindavíkur, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og VR til mótmæla við skrifstofu Gildis, lífeyrissjóðs okkar félagsfólks.

Flest öll vita af hverju þau mótmæli áttu sér stað en lífeyrissjóðir landsins, sem eru í eigu launafólks, hafa neitað að koma almennilega til móts við Grindvíkinga vegna lánamála í þeim miklu hremmingum sem við förum í gegn um þessa dagana.

Gildi lífeyrissjóður hefur sent stjórn VR kvörtun vegna framgöngu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, á mótmælunum. Sú ávirðing að formaðurinn hafi farið fram með offorsi vísa undirritaðir algjörlega til föðurhúsanna enda kom Ragnar Þór fram á málefnalegan og kurteisan hátt. Um það geta nokkrir tugir Grindvíkinga vottað – við höfum lista yfir þau vitni.

Það er lýðræðislegur réttur okkar að mótmæla, sá réttur verður ekki tekinn af okkur, ekki einu sinni af skrifstofufólki lífeyrissjóðanna; starfsfólki sem á að vinna að og tryggja hagsmuni sjóðfélaga sinna.

Við Grindvíkingar sýndum tilfinningar á mótmælunum, og töluðum í gjallarhorn til framkvæmdastjóra Gildis. Við biðjumst velvirðingar á að því að mótmælin hafi valdið starfsfólki óþægindum.

Það hefur löngum heitið Moggalygi þegar fulltrúar atvinnurekanda nota Morgunblaðið í þeim annarlega tilgangi að koma formönnum stéttarfélaga í vandræði, með hálfsannleik og jafnvel ósannsögli að vopni, eins og gert er á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Við höfnum því alfarið að umræðum um hjálp til Grindvíkinga í neyð sé drepið á dreif með upplognum ávirðingum og krefjum lífeyrissjóðina um svör vegna réttmætrar kröfu Grindvíkinga um að fella niður vexti og verðbætur af lánum í þrjá mánuði.

Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur

Einar Hannes Harðarson, formaður sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert