Fangar með greiðan aðgang að vímuefnum

Umboðsmaðurmaður Alþingis gerir margvíslegar athugasemdir við aðstæður fanga á Litla-Hrauni …
Umboðsmaðurmaður Alþingis gerir margvíslegar athugasemdir við aðstæður fanga á Litla-Hrauni í nýrri skýrslu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Fangar á Litla-Hrauni glíma flestir við vímuefnavanda og hafa greiðan aðgang að vímuefnum innan fangelsisins, að því er fram kemur í skýrslu umboðsmanns Alþingis um fangelsið á Litla-Hrauni. 

Umboðsmaðurmaður gerði margvíslegar athugasemdir við aðbúnað og aðstæður fanga á Litla-Hrauni í nýrri heimsóknarskýrslu. Þegar hann heimsótti fangelsið dagana 28. til 30 nóvember 2022 kom m.a. í ljós að starfsmenn höfðu aðgang að varnartækjum, s.s. táragas og kylfum, án þess að notkunin væri skráð eða yfirmanni vaktar tilkynnt. 

Umboðsmaður bendir á að fæðispeningar, dagpeningar og greiðslur fyrir vinnu og nám dugi ekki fyrir þeim útgjöldum sem fangar standa straum af í fangelsi. 

Flestir fangar glíma við vímuefnavanda

Umboðsmaður segir að flestir fangar á Litla-Hrauni glími við vímuefnavanda og að annað verði ekki ráðið en að þeir hafi greiðan aðgang að vímuefnum innan fangelsisins.

Þá segir í skýrslunni að vímuefnaneysla hafi mikil áhrif á starfsemi og reglu í fangelsinu og að ofbeldi innan fangahópsins, og inngrip af hálfu starfsfólks, sé oft tengt vímuefnaneyslu. Vandamál vegna vímuefnaneyslu séu óumdeild í fangelsinu.

Þegar umboðsmaður heimsótti fangelsið var aðeins einn fangi, af þeim 48 sem voru í afplánun, sem hafði virka meðferðaráætlun. 

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu ábótavant

Komið getur til þess að fangar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda þurfi að bíða lengi eftir að komast undir hendur læknis. Einnig getur löng bið verið eftir tannlæknaþjónustu, sem er háð fjárráðum hvers fanga.

Umboðsmaður segir suma fangar með geðræna vanda glíma við alvarleg veikindi og þurfa af þeim sökum mikla geðheilbrigðisþjónustu, oftast innan fangelsisins. Aftur á móti hefur tilkoma geðheilsuteymis bætt geðheilbrigðisþjónustu fanganna en samt getur verið afar erfitt fyrir fanga að fá innlögn á geðdeild.

Fangar sem glíma við andleg veikindi eru líklegri til þess …
Fangar sem glíma við andleg veikindi eru líklegri til þess að vera aðskildir frá öðrum föngum, á öryggisdeild eða í öryggisklefa. mbl.is/Árni Sæberg

Fangar með geðvanda líklegri til þess að vera einangraðir

Í skýrslunni segir að þeir fangar sem glíma við andleg veikindi séu einnig líklegri til þess að vera aðskildir frá öðrum föngum, á öryggisdeild eða í öryggisklefa, sem feli í sér einangrun sem getur lagst þungt á þá sem glíma við andleg veikindi.

Umboðsmaður bendir á að í mörgum tilfellum voru fangar hvorki skoðaðir af lækni við upphaf vistunar í öryggisklefa né á meðan vistuninni stendur. Hann mælir einnig til þess að tryggt sé að vistun fanga í öryggisklefum sé endurmetin á hverjum degi vistunartímans.  

Kynferðisafbrotamenn forðast útiveru

Umboðsmaður bendir einnig á að fangar sem afplána dóma vegna kynferðisbrota eigi á hættu að verða fyrir aðkasti að hálfu annarra fanga og veigra þeir sér t.a.m. við að fara í útiveru.

Dæmi voru um að fangar hefðu ekki farið út undir bert loft mánuðum saman, nema til að sækja vinnu eða fara í heimsóknaraðstöðu.

Við heimsókn umboðsmanns hafði útivistartími þessara fanga verið afnuminn, m.a. með vísan til þess að þeir hefðu ekki nýtt sér hann.

Barnakot, þar sem fangar geta varið tíma með börnum sínum, …
Barnakot, þar sem fangar geta varið tíma með börnum sínum, er aðeins opið á virkum dögum frá kl. 13-15.30. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gert að afklæðast að fullu fyrir þvagsýnatöku

Í flestum tilvikum bauðst föngum ekki að vera viðstaddir klefaleit, en skýrslur um klefaleitir báru ekki með sér að teknar hefðu verið formlegar ákvarðanir af hálfu forstöðumanns og bókað um þær. Dæmi voru um það að fangar fengu ekki skýra útskýringu á ástæðum leitar.

Umboðsmaður bendir á að föngum sé gert að afklæðast að fullu við líkamsleit, án þess að sérstakt mat sé lagt á hvort ganga megi skemur. Slík framkvæmd geti falið í sér hættu á vanvirðandi meðferð.

Föngum er einnig gert að afklæðast að fullu við þvagsýnatöku, en þó gefinn kostur á að klæðast sloppi frá fangelsinu. Umboðsmaður segir að við slíkar framkvæmdir eigi ávallt að styðjast við meðalhóf og nauðsyn. Einnig voru dæmi um að skráning um tilefni röntgenrannsókna væri ekki fullnægjandi.

Barnakot aðeins opið í tvo og hálfan tíma á dag

Umboðsmaður gerði einnig athugasemd við Barnakot, þar sem fangar geta varið tíma með börnum sínum, en það er aðeins opið á virkum dögum frá 13-15.30, sem geri fjölskyldum erfitt að nýta aðstöðuna, m.a. sökum skólahalds.

Einnig er bent er á mörg dæmi um skort á upplýsingagjöf til fanga. Fangar séu ekki alltaf meðvitaðir um möguleika á að eiga símtöl í einrúmi í símaherbergjum í fangelsinu.

Fangar voru ýmist ekki eða illa upplýstir um kvörtunarleiðir innan fangelsisins og báru almennt lítið traust til þeirra – þar sem þeir efuðust margir um að trúnaðar yrði gætt um efni kvartananna. Einnig voru dæmi um að kvörtunum væri ekki svarað.

Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hreinlæti ábótavant og mikil niðurníðsla í hluta húsnæðisins

Í skýrslunni segir að hreinlæti í fangelsinu sé ábótavant. Fangar lýstu sumir óþægindum sem gætu fylgt því að nota salernið í klefum sínum, þar sem sameiginleg hreinlætisaðstaða var ekki aðgengileg að nóttu til.

Þá sé einnig mikil niðurníðsla í sumum hluta húsnæðisins og slæm loftgæði séu einnig í fangelsinu, sem megi rekja til þess að reykingar eru leyfðar inni á klefum.

Í september tilkynnti dómsmálaráðherra áform um uppbyggingu nýs fangelsis að Litla-Hrauni. Umboðsmaður kveðst fylgjast náið með þeim áætlunum. „Hins vegar verður að taka í huga að  umræddar framkvæmdir, ef verður af þeim, munu taka nokkurn tíma.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert