Óboðlegur árangur grunnskólanna

Jón Pétur segir það þyngra en tárum taki að sjá …
Jón Pétur segir það þyngra en tárum taki að sjá árangurinn sem endurspeglast í könnuninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert ríki OECD lækkar jafn mikið milli PISA-kannana og Ísland. Þetta er ljóst eftir að niðurstöður könnunar síðasta árs voru kunngjörðar í gær, en síðasta könnun þar á undan var gerð árið 2018.

Mælir hún hæfni grunnskólanemenda í lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúruvísindum. Ísland stendur sig verst á Norðurlöndum og nálgast nú botn listans, sem samtals telur 37 ríki. Aðeins fimm þeirra fá lægri einkunn; Grikkland, Chile, Mexíkó, Kosta Ríka og Kólumbía.

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla segir í samtali við Morgunblaðið að viðbrögð ýmissa viðmælenda fjölmiðla í gær hafi vakið undrun sína.

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla.
Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Viðbrögðin stórfurðuleg

„Viðbrögðin eru, bara vægast sagt, stórfurðuleg finnst mér, hjá þeim sem hafa tjáð sig núna um niðurstöðurnar. Það eina sem stjórnvöld og yfirvöld, hvort sem það eru kennarasamtök, sveitarfélög eða ríki, geta gert – við getum ekki breytt foreldrum. Við höfum ekki til þess tæki. En við getum skoðað hvað við erum að gera í skólunum og hvað hefur verið að breytast síðustu árin, og reynt að horfa gagnrýnum augum á það.“

Þú talar um stórfurðuleg viðbrögð. Hvaða viðbrögð eru það?

„Fólk er bara að tala um kerfisbreytingar og að heimilin verði að gera eitthvað. Við sem skólasamfélag verðum að horfast í augu við hvað við höfum verið að gera. Við verðum að axla ábyrgð á því. Skólakerfið kostar næstum 200 milljarða og hvað fáum við út úr því? Við fáum út úr því að rúmlega 50% drengja geti lesið sér til gagns. Þetta er bara ekki boðlegt,“ segir hann.

Hver ætlar að taka ábyrgð?

„Þannig að það þýðir ekkert fyrir okkur í skólakerfinu að vera að benda á einhverja aðra. Þeir sem eru okkar stuðningsaðilar; Menntamálastofnun, ráðuneytið, sveitarfélögin – við verðum að horfa inn á við og við verðum að breyta því sem þarf að breyta.“

Hann nefnir að samfélagsbreytingar hafi líka torveldað íslenskunám.

„En þegar við erum að eyða tæplega 200 milljörðum í skólakerfið þá er þessi árangur langt frá því að vera boðlegur. Ég spyr bara: Hver ætlar að taka ábyrgð á þessum árangri? Tækifærin og lífsgæðin sem er verið að hafa af íslenskum börnum með þessu. Það er þyngra en tárum taki að sjá þetta, að börn séu að tapa heilu skólaári hérna á milli kannana.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert