Ekki góð tíðindi fyrir ferðaþjónustuna

Bogi Nílsson, forstjóri Icelandair.
Bogi Nílsson, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Boga Nils Bogasyni, forstjóri Icelandair, líst ekki vel á boðaða vinnustöðvun flugumferðarstjóra í næstu viku og segir að þær komi á mjög slæmum tíma fyrir Icelandair og ferðaþjónustuna í landinu.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boðað vinnustöðvun dagana 12. og 14. desember, sex klukkutíma í senn frá klukkan fjögur á morgnana til klukkan tíu, í aðflugssvæðinu í kringum Keflavík og Reykjavík. Verði að fyrirhugaðri vinnustöðvun stöðvast allt flug á áðurnefndum tíma að undanskildu sjúkraflugi og allt flug á vegum Landhelgisgæslunnar.

„Desember er mikilvægur mánuður fyrir okkur og ferðaþjónustuna. Við erum að fást við óvissu vegna stöðunnar á Reykjanesi sem hefur haft neikvæð áhrif á bókunarflæði og komu ferðamanna og verði af þessari vinnustöðvun flugumferðarstjóra er það auðvitað alls ekki gott,“ segir Bogi Nils í samtali við mbl.is.

Bogi segir Icelandair sé alltaf að stilla upp viðbragðsáætlunum fyrir allskonar sviðsmyndum og nú sé ein á teikniborðinu vegna þessara boðuðu vinnustöðvunar hjá flugumferðarstjórunum.

Lokun Bláa lónins hefur áhrif á bókanir

Hann segir að dregið hafi úr bókunum í kjölfar atburðanna á Reykjanesi og lokun Bláa lónsins en það hefur verið lokað frá því 9. nóvember.

„Ég held að öll ferðaþjónustan finni það þegar svona ástand er, þótt það sé öruggt að koma til Íslands og við höfum reynt að halda því á lofti úti í heimi, þá hefur það áhrif. Það er hægt að nefna í því sambandi Bláa lónið, eins stórt og þekkt vörumerki og það er. Fólk úti í heimi sem er að skoða leitarvélarnar sér að Bláa lónið er lokað og það segir sig sjálft að meðan það er lokað þá hefur það áhrif á bókanir til Íslands,“ segir Bogi.

Hann segir að til lengri tíma sé bókunarflæðið sterkt en til skemmri tíma þá séu atburðirnir á Reykjanesi að hafa áhrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert