Farþegum fjölgaði þrátt fyrir jarðhræringar

Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Hörður Sveinsson

Icelandair flutti 13% fleiri farþega í nóvember samanborið við sama mánuð í fyrra, þrátt fyrir neikvæð áhrif sem umfjöllun erlendra fjölmiðla um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafði.

Farþegum félagins fjölgaði mest, eða um 37%, á Norður-Atlantshafsmarkaðnum um Ísland.

Það sem af er ári hefur félagið flutt fjórar milljónir farþega, 17% fleiri en á sama tímabili í fyrra. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair, sem flutti 282 þúsund farþega í nóvember. 36% þeirra farþega voru á leið til Íslands, 16% frá Íslandi, 40% ferðuðust um Ísland á leið sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku og 8% ferðuðust innan Íslands.

Betri sætanýting en í fyrra

Sætanýting var 75,4%, 1,9 prósentustigum meiri en í fyrra og stundvísi var 84,5%.

Í tilkynningunni er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að flugframboðið hafi aukist um 12% frá fyrra ári.

„Þessi árangur náðist þrátt [fyrir] neikvæð áhrif sem umfjöllun erlendra fjölmiðla um jarðhræringarnar á Reykjanesi hafði á bókunarflæðið. Einhverra áhrifa þessa gætir enn til skemmri tíma á bókanir og tekjur en til lengri tíma er bókunarflæðið að færast í fyrra horf,“ er haft á eftir forstjóranum, sem kveðst stoltur af starfsfólki Icelandair.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert