Segir flugumferðarstjóra ekki mega skorast undan

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir enga mega skorast undan ábyrgð í gerð á langtímakjarasamningum, til að skapa stöðugleika. Þar á meðal flugumferðarstjóra. 

Innt eftir viðbrögðum við fyrirhugaðri vinnustöðvun flugumferðarstjóra í næstu viku segir Sigríður mikilvægt að allir leggi hönd á plóg við að skapa stöðugleika í hagkerfinu.

„Við verðum öll að sýna ábyrgð og það má engin skorast undan því. Hvorki aðilar vinnumarkaðarins, né ríkið eða einstök fyrirtæki og heldur ekki flugumferðarstjórar.“

Almenn samstaða í garð langtímakjarasamninga

Sigríður segir almennt mikla samstöðu ríkja í gerð langtímakjarasamninga, enda sé mikið ákall frá bæði heimilunum og fyrirtækjum um að ná verðbólgunni niður, sem sé nú 8 prósent. Þá minnir Sigríður einnig á að stýrivextir séu 9,25 prósent.

„Við höfum til dæmis séð sveitarfélögin stíga fram og segja að þau hafi lýst yfir vilja til þess að gjaldskrár þeirra verði ekki til þess að raska stöðugleika,“ segir Sigríður.

Spurð hvort hún telji flugumferðarstjóra skorast undan ábyrgð með vinnustöðvun svarar Sigríður einungis: „Það er ekki búið að semja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert