Sjálfsagt að breyta reglugerð um Airbnb ef þarf

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, í fyrsta þætti Spursmála hér á mbl.is á föstudag. Þær tókust aftur á í dag á Alþingi. mbl.is/Brynjólfur Löve

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að mögulega þurfi að breyta reglugerð sem lítur að starfsemi skammtímaleigu og Airbnb hér á landi.

Árið 2018 var reglugerðinni breytt þannig að ekki var lengur gerð krafa um að allir gististaðir utan heimagistingar skyldu vera starfræktir í atvinnuhúsnæði. Krafan þótti of takmarkandi út frá ráðstöfunarrétti fasteigna í eigu einstaklinga og lögaðila.

Samkeppnisstaða skökk og ójöfn

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, gerði reglugerðarbreytinguna að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún sagði að Þórdís ætti að þekkja reglugerðina því sem ráðherra ferðamála hafi hún sett hana sjálf.

„Síðan þá hefur sú þróun ágerst af miklum þunga að nýjar íbúðir séu ekki nýttar til búsetu heldur fyrir ferðamenn, jafnvel heilu blokkirnar, án þess að sveitarfélög fái rönd við reist. Og ég vil því spyrja: Hvað gekk hæstvirtum ráðherra til þegar hún setti reglugerð nr. 649 frá árinu 2018? Hversu vegna vildi ráðherra ekki að húsnæði sem nýtt er til skammtímaleigu í atvinnuskyni væri skráð sem atvinnuhúsnæði?“

Ráðherra svaraði því til að samkeppnisstaða þeirra sem séu í atvinnurekstri og þeirra sem séu raunverulega í atvinnurekstri en ekki inni í þeim ramma sé skökk og ójöfn og það þurfi að vera jafnræði á milli aðila.

Sagði Þórdís að þegar reglugerðin hafi verið sett hafi enginn rammi verið utan um þessa starfsemi þannig að hann hafi verið smíðaður með hámarks dagafjölda án virðisaukaskattskyldu. Sagði hún komin sex ár síðan hér um bil og sjálfsagt og eðlilegt að þróa það áfram.

Sagði hún að fjölda íbúða á Airbnb gríðarlega mikinn, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Að stjórnvöld hafi farið í átak og sett fjármuni og forgangsraðað fjármunum innan úr málaflokkum og falið Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að fara í sérstakt átak til að taka á því að fólk sem ætti að vera skráð væri skráð og væri það ekki eða færi yfir hámarksfjölda daga fengi það sekt. Sagði hún átakið hafa skilað árangri og nefndi að það þyrfti að ýta á það.

Hvað er Reykjavíkurborg að gera?

Þá vék hún máli sínu að eftirliti sveitarfélaga sem hún sagði að hafi ekki farist sérlega vel hjá Reykjavíkurborg og skoraði á Kristrúnu að „tala við sína félaga hjá Reykjavíkurborg og spyrja hvað þau eru að gera til að ná betri tökum á umsvifum Airbnb á höfuðborgarsvæðinu“.

Þótti Kristrúnu svar ráðherra fara í kringum málefnið en ekki ofan í það og benti á að ramminn hafi verið settur upp í reglugerð frá árinu 2016 en honum breytt með þessum hætti árið 2018.

„Og nú erum við í þeirri stöðu, hæstvirtur forseti, að íbúar þessa lands búa í ósamþykktu atvinnuhúsnæði á meðan ferðafólk gistir í íbúðarhúsnæði. Og ekki nóg með að það sé staðan heldur, talandi um bolmagn sveitarfélaga, hafði þessi reglugerðarbreyting ráðherra þau áhrif á þessa gistingu að þessi gisting borgar einn tíunda af þeim fasteignagjöldum sem hún annars hefði gert.“

Þórdís svaraði því þá til að ef þurfi að breyta reglugerð til að stemma stigu við mikilli fjölgun og neikvæðum áhrifum á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu þá telji hún sjálfsagt að gera það.

Sagði hún þá einnig algerlega augljóst að Reykjavíkurborg hafi tök á því að gera betur til að vita hvað er í gangi í Reykjavík þegar kemur að Airbnb og ætti mjög gjarnan að gera það. Að lokum sagði hún að það muni ekki standa á sér að fara í frekari aðgerðir til að ná tökum á þessu ástandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert