Dregur úr stuðningi um 6,1 milljarð á ári

Opinber stuðningur við rafbíla og aðra vistvæna samgöngumáta mun lækka …
Opinber stuðningur við rafbíla og aðra vistvæna samgöngumáta mun lækka um 44% milli ára samkvæmt áætlun Guðlaugs Þórs Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra. Hann segir þessar breytingar til þess ætlaðar að stuðla að sem mestum samdrætti í losun og að Ísland uppfylli markmið sín í loftlagsmálum. Samsett mynd

Um áramótin munu beinir styrkir taka við af skattaívilnunum sem hvatar til kaupa á hreinorkubílum sem hluti af orkuskiptum í landsamgöngum. Styrkurinn verður veittur úr Orkusjóði. Nemur styrkurinn allt að 900 þúsund krónum fyrir einstaklingar og fyrirtæki.

Með breytingunni er dregið úr niðurgreiðslu til kaupa á hreinorkubifreiðum og öðrum vistvænum samgöngutækjum um samtals 6,1 milljarð frá þessu ári, eða um 44% milli ára.

Verður 30 milljörðum varið í þessa styrki á næstu fimm árum, en fyrstu tvö árin verður framlagið 7,5 milljarðar og 5 milljarðar árlega árin 2026-2028. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins við fyrirspurnum mbl.is um þessi mál frá því í lok september.

Er þetta í takti við fréttir Morgunblaðsins um breytingar á kerfinu frá því í október og umfjöllunar mbl.is frá í byrjun nóvember.

Enginn styrkur fyrir bíla sem kosta yfir 10 milljónir

Með þessari breytingu mun hámarksstyrkur á hverja bifreið lækka úr 1,32 milljónum niður í 900 þúsund, eða 32%

Þá er einnig staðfest að styrkurinn verði einungis veittur fyrir bifreiðar sem eru ódýrari en 10 milljónir króna. Enginn styrkur verður sem sagt veittur kosti bifreiðirnar meira en 10 milljónir króna.

Á þessu ári er gert ráð fyrir að stuðningur við hreinorkubíla verði samtals 11,6 milljarðar, en samkvæmt áætlun fyrir næsta árs er gert ráð fyrir að hann verði samtals 7,5 milljarðar. Er það því samdráttur upp á 4,1 milljarð þegar kemur að bifreiðum, en til viðbótar fellur niður stuðningur við kaup á öðrum vistvænum samgöngutækjum, endurgreiðsla virðisaukaskatts af heimahleðslustöðvum og fleira.

Hlutfallið á að vera hærra vegna ódýrari bíla

Styrkir vegna notaðra innfluttra bíla verða lægri og ná einungis til nýlegra bíla. Í dag er veittur afsláttur af virðisaukaskatti vegna allra hreinorkubíla óháð verði, en með breytingunum fá allir hreinorkufólksbílar sem á annað borð fá styrk, bæði heimilisbílar og bílaleigubílar, sömu upphæð. Segir í svarinu að með þessu verði styrkhlutfall vegna ódýrari bíla þar með hærra en dýrari bíla.

Orkusjóður mun annast afgreiðslu styrkjanna, en hægt verður að sækja um styrkina á mínum síðum á island.is. Gert er ráð fyrir að styrkumsóknir fái skjóta afgreiðslu þegar nýr hreinorkubíll hefur verið skráður á nýjan eiganda. Styrkir vegna atvinnubíla verði auglýstir tvisvar á ári.

Guðlaugur segir lækkun stuðla að sem mestum samdrætti í losun

Í svarinu er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra að með því fyrirkomulagi að lækka stuðninginn sé ætlunin að stuðla að sem mestum samdrætti í losun þannig að markmiðum Íslandsverði náð í loftlagsmálum. 

„Fyrirkomulaginu er ætlað að stuðla að sem mestum samdrætti í losun svo grænum orkuskiptum verði náð og Ísland geti náð markmiðum sínum í loftslagsmálum. Þess vegna leggjum við áherslu á orkuskipti bílaflotans. Breytingarnar sem gerðar verða á hvatakerfinu gera fyrirkomulagið gagnsætt og auðskiljanlegt og falla vel að hugmyndafræðinni um réttlát umskipti, þar sem styrkur vegna ódýrustu rafbílana er hlutfallslega hærri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert