Kaupa 80 íbúðir í fyrsta áfanga

Viðgerðir á vatnslögnum og rafmagnslögnum hafa staðið yfir í Grindavík …
Viðgerðir á vatnslögnum og rafmagnslögnum hafa staðið yfir í Grindavík síðustu dagana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir vinnu í fullum gangi við að reyna að tryggja Grindvíkingum húsnæði sem fyrst en tæpur mánuður er liðinn frá því íbúum Grindavíkur var gert að yfirgefa bæinn vegna náttúruhamfara.

Frumvarp um húsnæðisstuðning fyrir Grindvíkinga var samþykkt á Alþingi í vikunni en áður hafði verið samþykkt að veita Grindvíkingum tímabundinn launastuðning.

„Við erum að fara að kaupa um 80 íbúðir í fyrsta áfanga á næstu dögum sem leigufélagið Bríet mun sjá um að leigja Grindvíkingum,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is.

Sigurður segir vinnu við að endurbæta innviði Grindavíkurbæjar hafi gengið furðuvel en miklar skemmdir urðu í lagnakerfinu auk þess rof kom í nokkra vegi í bænum svo ekki sé talað um skemmdir á mannvirkjum.

Undir það búnir að halda jólin utan Grindavíkur

„Það er ekki komin heildarmynd á tjóninu og hversu mikið það er og ég held að það sé ekki að öllu leyti komið fram,“ segir Sigurður.

Sérð þú fyrir þér að Grindvíkingar geti haldið jólin heima?

„Mér sýnist að það sé svolítið erfitt og það hefur verið gefið út áður af almannavörnum að svo verði ekki. Auðvitað vonast maður eftir því að hlutirnir gangi eins vel og hægt er en ég held að Grindvíkingar séu undir það búnir að halda jólin annars staðar en í Grindavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert