Mikill kostnaður mun falla á flugfélögin

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. mbl.is/Eggert

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að flugfélagið muni reyna eftir fremsta megni að bregðast eins vel við og hægt er, verði af boðuðum vinnustöðvunum flugumferðarstjóra.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boðað vinnustöðvanir á morgun og á fimmtudag, sex klukkutíma í senn frá klukkan 4 til 10 að morgni í aðflugssvæðinu í kringum Keflavík og Reykjavík.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar í Karphúsinu klukkan 14 í dag þar sem reynt verður til þrautar að ná samningum í deilunni.

Síðasta sem þurfti á að halda

„Við höfum frá því þessi boðun um vinnustöðvanir átti sér stað reynt að að bregðast við en auðvitað höldum við í vonina um að samningar náist í deilunni,“ segir Birgir Jónsson, forstóri Play við mbl.is.

Birgir segir mjög óþægilegt að vera í þessari stöðu og að þessar fyrirhuguðu vinnustöðvanir flugumferðastjóra komi á versta tíma.

„Þetta er það síðasta sem við og ferðaþjónustan þurfum á að halda. En við verðum að reyna að komast í gegnum þetta ef að þessum vinnustöðvunum verður. Þetta snýst um að reyna að koma vélunum framhjá þessu glugga, seinka vélunum frá Bandaríkjunum, seinka brottförum og reyna að forðast niðurfellingar,“ segir Birgir.

Búa sig undir það versta

„Þessi verkföll eru sett upp á versta tíma og ég skil svo sem alveg ástæðuna fyrir því. En það mun falla mikill kostnaður á flugfélögin ef ekki tekst að semja og það er ósanngjarnt þar sem við erum ekki aðilar að málinu,“ segir Birgir.

„Það má segja að við séum saklaus fórnarlömb. Við búum okkur undir það versta en vonum það besta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert