Æðin fór alveg í sundur

Aðalmeðferð hófst í Ólafsfjarðarmálinu í gær og var fram haldið …
Aðalmeðferð hófst í Ólafsfjarðarmálinu í gær og var fram haldið í dag. Samsett mynd

Slagæðin sem rofnaði í mjöðm Tómasar Waagfjörð á Ólafsfirði í október á síðasta ári fór alveg í sundur. Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur bar vitni um það fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag. 

Aðalmeðferð Ólafsfjarðarmálsins lýkur í dag. 

Pétur sagði að ólíklegt væri að Tómas hafi sjálfur getað veitt sér tvær stungur. Banamein hans var blóðtap, en hann hlaut tvær djúpar stungur í átökum við Steinþór Einarsson. Steinþór er ákærður fyrir manndráp.

Stungurnar mjög líkar

Vitnaði Pétur til um það að stungurnar tvær væru mjög líkar og líkist stungum í tilvikum þar sem einstaklingur hefur verið stunginn ítrekað. Spurður um tímarammann, tímann sem gæti hafa liðið milli stunga, sagði hann að líklega hafi verið stutt á milli þeirra.

Stungurnar hlaut Tómas í vinstri síðu, nálægt mjöðm. Voru stungurnar hvor sínu megin við mjaðmakambinn, 10 og 12 sentimetra djúpar. Sú dýpri fór í gegnum mjaðmaslagæð.

Spurður af verjanda Steinþórs, Snorra Sturlusyni lögmanni, hvort Tómas hefði sjálfur getað veitt sér stungurnar, ef hönd hans hefði verið ýtt í síðuna sagðist Pétur ekki geta útilokað það. 

Hann sagði það hins vegar harla ólíklegt og að það hefði þurft að gerast tvisvar sinnum, nánast nákvæmlega eins.

Hvernig sneri hnífurinn?

Dómari, sækjandi og verjandi veltu upp hinum ýmsu stellingum sem Steinþór og Tómas hefðu getað verið í þegar Tómas hlaut stungurnar tvær. Léku dómari og verjandi fyrir Pétri nokkrar útgáfur er þeir spurðu hann út í hvernig hnífnum var beitt er hann hafnaði í mjöðm Tómasar. 

Pétur sagðist þó lítið vilja útiloka annað en það sem gögnin sýndu um dýpt sáranna og stefnu sáraganganna. 

Pétur sagðist aldrei reyna að geta í eyðurnar í sakamálum sem þessum. Eftir að hafa horft á sviðsetningu af átökunum sagðist Pétur hafa upplifað eyðu. Hann gæti ekki útskýrt með fullnægjandi hætti hvernig hinn látni fékk hlaut stungurnar. 

Hann sagðist þó geta sagt að ólíklegt væri að Tómas hefði hlotið stungurnar óvart. Gögnin sýndu að markvissan vilja þyrfti til að veita svona stungur, en ekki væri hægt að segja til um hversu úthugsaður sá vilji væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert