Fer fram á fimm ár eða minna fyrir manndráp

Ákæruvaldið fer fram á fimm ár eða minna.
Ákæruvaldið fer fram á fimm ár eða minna. mbl.is/Sonja

Ákæruvaldið fer fram á að Steinþór Einarsson verði dæmdur í fimm ára fangelsi eða minna fyrir að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana á Ólafsfirði á síðasta ár. 

Þetta kom fram í máli Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag. Steinþór hefur neitað sök og borið fyrir sig neyðarvörn.

Kolbrún sagði að Steinþór hefði sannarlega þurft að beita neyðarvörn og að gögn málsins sýndu að hinn látni hefði verið upphafsmaður að átökunum. Sé það þó mat ákæruvaldsins að Steinþór hefði farið út fyrir mörk leyfilegrar neyðarvarnar og að líta verði til þess að Tómas hefði látist í átökunum. 

Lágmarks refsing fyrir manndráp er 5 ár en sagði Kolbrún að dómari gæti einnig sakfellt Steinþór án þess að honum yrði gerð refsing og yrði þá litið til 74. gr. hegningarlaga. 

Hefði mátt vera ljóst að stungurnar væru alvarlegar

Sagði ákæruvaldið að út frá skýrslum sérfræðinga og vitna í málinu væri annað útilokað en Steinþór hefði á einhverjum tímapunkti náð taki á hnífnum og veitt Tómasi tvær stungur neðarlega í kviðinn. Önnur stungan var banamein Tómasar, en slagæð fór í sundur í stungunni. Missti Tómas því mikið blóð. 

„Sækjandi telur að ákærði hafi sannarlega verið að verjast árás og það var nauðsynlegt að verjast þessari árás. Það var búið að stinga hann tvisvar sinnum,“ sagði Kolbrún. 

Hún sagði þó að Steinþóri hefði mátt vera ljóst að Tómas gæti látist af þessum stungum. 

Sagði Kolbrún að stíga yrði varlega til jarðar þegar ákvæði sem vísar til neyðarvarnar yrði beitt og að líta verði til þess að maður hefði látist þessa nótt.

Fer fram á sýknu

Snorri Sturluson, verjandi Steinþórs, fór fram á að Steinþór yrði sýknaður af öllum ákærum. Ljóst væri að Tómas hefði ráðist að Steinþóri með hníf. Þannig hefði hann gert atlögu að lífi Steinþórs. Steinþór hefði, eins og hann lýsti sjálfur í skýrslu í gær, verið hræddur um líf sitt. 

Hann hefði því ekki átt annarra kosta völ en að beita neyðarvörn til að reyna að lifa árás Tómasar af. 

Snorri sagðist eiga erfitt með að sjá að Steinþór hefði farið út fyrir takmörk neyðarvarnar er hann varðist árás Tómasar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert