Starfsmaður dæmdur fyrir samræði við grunnskólabarn

Dómur var kveðinn yfir starfsmanninum í Héraðsdómi Norðurlands vestra.
Dómur var kveðinn yfir starfsmanninum í Héraðsdómi Norðurlands vestra.

Fyrrverandi starfsmaður í grunnskóla á Norðurlandi vestra, hefur hlotið þriggja og hálfs árs dóm fyrir að hafa ítrekað samræði við stúlku í níunda bekk skólans. Taldi dómstóllinn þó stúlkuna hafa veitt samþykki og var hann því sýknaður af ákæru um nauðgun.

Vísir greindi fyrst frá dómnum, en hann hefur ekki verið birtur á vef Héraðsdóms Norðurlands vestra. Greint er frá því að maðurinn sé hælisleitandi frá Sýrlandi sem hafi flutt í bæjarfélagið árið 2019.

Var manninum gert að greiða stúlkunni tvær milljónir í miskabætur auk alls sakarkostnað í málinu er nemur um 4,2 milljónir króna.

Sýknaður af nauðgunarákæru

Taldi dómstóllinn að sannað væri að maðurinn hafi brotið hegningarlög með því að hafa samræði við barn undir 15 ára. Féllst dómstóllinn þó ekki á skilning ákæruvaldsins um að fjórtán ára gamalt barn gæti ekki veitt samþykki og sýknaði þar með manninn af ákæru um nauðgun. 

Dóminum hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Eiga brotin að hafa verið ítrekuð síðan nóvember árið 2021 og átt sér stað á heimili hans, heimili stúlkunnar, í tveimur bifreiðum og á fyrsta brot að hafa átt sér stað innan veggja skólans, þar sem maðurinn starfaði þar til í mars 2022. 

Á skólastjóri í þrígang að hafa rætt við starfsmanninn vegna orðróma sem gengu starfsmanna skólans á milli, um að eitthvað væri óeðlilegt við samband hans við stúlkuna.

Fundust ýmis skilaboð og myndir í síma mannsins sem að …
Fundust ýmis skilaboð og myndir í síma mannsins sem að studdu við frásögn stúlkunnar. AFP

Lét aldur stúlkunnar sér í léttu rúmi liggja

Hinn 6. maí á stúlkan að hafa hringt í hjálparsíma Rauða krossins varðandi málið og systir hennar komist á snoðir um það. Foreldrar hafi þá orðið málsins vísir og farið með það á borð skólastjóra og yfirvalda félagsmála í bæjarfélaginu. 

Var maðurinn handtekinn af lögreglu daginn eftir og sími hans gerður upptækur. Fundust þar ýmis skilaboð og myndir af bæði honum og stúlkunni sem að studdu við frásögn hennar. Var hann þá úrskurðaður í gæsluvarðhald og nálgunarbann sett á hendur honum gagnvart stúlkunni.

Á maðurinn hins vegar að hafa alfarið neitað sök í málinu og kvaðst hafa haldið að stúlkan hefði þegar náð 15 ára aldri. Á dómurinn að hafa ályktað að maðurinn hafi vitað í hvaða bekk stúlkan hafi verið enda hafi hann verið starfsmaður skólans. Með því að spyrja hana ekki um aldur hafi hann þar með látið sér aldur hennar í léttu rúmi liggja.

Leið stúlkunni verulega illa er málið kom fyrst upp og stundaði hún sjálfskaða um tíma ásamt því að hafa reynt að svipta sig lífi einu sinni. Var hún vistuð á barna- og unglingageðdeild í kjölfarið og segir líðan sína betri í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert