Hyggjast heimila Hvammsvirkjun

Hvammsvirkjun verður efsta virkjunin í neðri hluta Þjórsár. Á tölvuteikningu …
Hvammsvirkjun verður efsta virkjunin í neðri hluta Þjórsár. Á tölvuteikningu sjást stífla og lón og stöðvarhúsið á austurbakkanum. Tölvumynd/Landsvirknun.

Umhverfisstofnun kynnti í dag áform um að veita heimild til breytinga á svonefndu vatnshloti í Þjórsá 1 vegna 95 MW Hvammsvirkjunar. Þar kemur fram að öll skilyrði séu uppfyllt í samræmi við ákvæði vatnalaga. Í vatnalögum er vatnshlot skilgreint sem eining vatns, t.d. stöðuvatn eða mikið magn vatns á einu svæði.

Fyrir um ári veitti Orkustofnun Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefnar umhverfis- og auðlindamála. Hún skilaði niðurstöðu sl. sumar og felldi ákvörðun OS um virkjunarleyfi úr gildi.

Umhverfisstofnun getur heimilað breytingu á ástandi vatns og/eða vatnsfarvegar sem hefur í för með sér að ekki er hægt að ná fram umhverfismarkmiðum, samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Komst úrskurðarnefndin að því að slík heimild hafi ekki verið veitt þegar OS gaf virkjunarleyfið út.

Umhverfisstofnun hefur nú unnið ítarlegt mat á mótvægisaðgerðum Landsvirkjunar og tilgangi framkvæmdarinnar og telur að skilyrði fyrir heimildinni liggi nú fyrir. Er það mat Umhverfisstofnunar að Landsvirkjun hafi lagt fram gögn sem sýna fram á að gripið verði til allra þeirra ráðstafana sem raunhæfar teljast til að draga úr skaðlegum áhrifum á ástand Þjórsársvæðisins. Fellst stofnunin þar með á beiðni Landsvirkjunar um að veita heimildina.

Raforkuöryggi vegi þyngra en umhverfismarkmið

Í niðurstöðum sínum segir Umhverfsisstofnun meðal annars:

„Umhverfisstofnun telur því að tilgangur Hvammsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi varði almannahagsmuni sem vegi þyngra en ávinningur af því að umhverfismarkmið vatnshlotsins sem að framan er lýst náist. Þegar af þessari ástæðu telur Umhverfisstofnun að skilyrði b-liðar 2. mgr. séu uppfyllt.

Með vísan til ákvörðunar Alþingis um að setja Hvammsvirkjun í orkunýtingarflokk telur Umhverfisstofnun að fyrir liggi ákvarðanir löggjafarvaldsins um mat á þjóðhagslegri hagkvæmni Hvammsvirkjunar. Greiningar Orkustofnunar í svarbréfi stofnunarinnar dags. 20. desember 2023 styðja einnig þessa niðurstöðu, auk þess að bent er á fleiri valkosti en Hvammsvirkjun sé meðal þeirra kosta sem eru heppilegastir. Umhverfisstofnun telur því að framkvæmdin uppfylli skilyrði c-liðar 2. mgr. 18. gr. laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011.“

Framkvæmdir gætu hafist í vor

Endanleg niðurstaða verður tilkynnt að loknum fresti til athugasemda sem er til 17. janúar 2024. Verði heimildin veitt, hefur Orkustofnun umfjöllun um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun að nýju. Stofnuninni ber að taka ákvörðun um útgáfu virkjunarleyfis innan tveggja mánaða frá því öll gögn hafa borist stofnuninni.

„Verði virkjunarleyfið veitt geta sveitarfélögin tvö, Rangárþing ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur gefið út framkvæmdaleyfi. Gangi allt eftir gætu undirbúningsframkvæmdir fyrir Hvammsvirkjun hafist í vor,“ segir Landsvirkjun á vef sínum um niðurstöðu Umhverfisstofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert