Tilkynning borist um þrjú snjóflóð

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Nóttin var tiltölulega róleg á Vestfjörðum hvað varðar snjóflóðahættu að sögn Ólívers Hilm­ars­sonar, of­an­flóðasér­fræðing­s á snjóflóða- og skriðuvakt Veður­stofu Íslands. Óvissustig var lýst yfir frá miðnætti vegna snjóflóðahættu á svæðinu.

Í samtali við mbl.is segir hann að fáar tilkynningar hafi borist um snjóflóð þar sem fáir eru á ferli á svæðinu.

Tilkynning barst þó um að snjóflóð hafi fallið um Eyrarhlíð í gær, á milli Ísafjarðar og Hnífsdals, og var veginum lokað í kjölfarið. Flóðið var um 50 metra breitt á veginum. 

Vegagerðin sinnir ekki snjómokstri á Vestfjörðum vegna slæmrar veðurspár en staðan verður endurmetin klukkan 9. 

Tvö flóð á Siglufjarðarvegi

Þá barst tilkynning um tvö snjóflóð á Siglufjarðarvegi og er vegurinn lokaður. Ólíver segir að mikið hafi snjóað á Tröllaskaga. 

Ólíver segir að óvissustigið verði í gildi fram eftir degi. „Það er ekki að mælast mikil úrkoma, en það er ekki alltaf að marka mælanna,“ segir hann og bætir við að ekki sé eins hvasst og búist var við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert