Leita enn mannsins sem féll ofan í sprungu

Tveir menn í einu síga ofan í sprunguna í körfu …
Tveir menn í einu síga ofan í sprunguna í körfu til að leita að manninum. mbl.isKristinn Magnússon

Björgunarsveitarmenn leita enn að manninum sem féll ofan í sprungu fyrir hádegi í Grindavík. Þó sprungan hafi ekki litið út fyrir að vera stór á yfirborðinu breikkar hún þegar neðar er komið. Um talsvert stórt rými er því að ræða.

Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

„Fyrr í kvöld var búið að tryggja vettvang þannig að það væri talið óhætt að fara aftur niður,“ segir Jón.

Sprungan breikkar þegar neðar er komið

Fyrirkomulag björgunaraðgerða er þannig háttað að tveir björgunarsveitarmenn síga niður í sprunguna í körfu. Er þetta gert reglulega og verður haldið áfram þar til maðurinn finnst.

Jón Þór segir að erfitt sé að lýsa vettvangi nákvæmlega að öðru leyti en að maðurinn hafi fallið ofan í litla sprungu sem breikkar því dýpra sem er farið.

„Þar sem hann fellur niður, það er bara lítið gat, en þegar er komið þarna neðar er talsvert meira rými,“ segir Jón Þór.

Leit heldur áfram af manni sem féll ofan í sprungu …
Leit heldur áfram af manni sem féll ofan í sprungu í Grindavík. mbl.isKristinn Magnússon

Á annað hundrað manns komið að aðgerðum

Björgunarsveitarmenn á vettvangi sögðu fyrr í kvöld við mbl.is að talið væri að sprungan væri 20-30 metrar á dýpt.

Talsverður fjöldi fólks hefur komið að aðgerðum, yfir 120 manns, og hafa björgunaraðilar vaktaskipti í nótt til að halda aðgerðum áfram. Svo verða vaktaskipti á ný í fyrramálið ef maðurinn verður enn ófundinn.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að mannsins yrði leitað þar til hann yrði fundinn.

Frá aðgerðum í Grindavík.
Frá aðgerðum í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert