„Fólki er enn og aftur kippt inn í þetta áfall“

Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju.
Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju. mbl.is/Hákon Pálsson

„Fólki er mjög brugðið – því er enn og aftur kippt inn í þetta áfall. Því miður ágerist þetta bara og verður erfiðara og erfiðara,“ segir El­ín­borg Gísla­dótt­ir, sókn­ar­prest­ur í Grinda­vík.

„Ég er auðvitað hluti af þessum hóp og ég get bara sagt að það er ekki mikil von í okkur þessa dagana – við erum dálítið beygð.“

Elínborg segir í samtali við mbl.is að einmitt þess vegna hafi Grindvíkingar gripið tækifærið til að koma saman. Hún hefur átt þónokkur samtöl við Grindvíkinga í gær og segir að mikil sorg og kvíði sé hjá íbúum. Eftir gærdaginn hafi fólk verið frekar ónýtt og búið á því.

Samverustundin mikilvæg

Hún segir mikilvægt að fólk komi saman í kjölfar slíkra atburða og að fólk sé mjög slegið.

Samverustundir voru haldnar bæði í Hafnarfjarðarkirkju og Keflavíkurkirkju síðdegis í dag. Elínborg segir skipta máli í öllum áföllum að eiga samfélag sem fólk geti verið hluti af.

Segir hún gott fyrir fólk sem lendi í sömu áföllum að koma saman og tala við annað fólk sem skilji það vel. Segir hún það gilda um það áfall sem Grindvíkingar hafa orðið fyrir eins og önnur áföll. Fólk geti deilt líðan, reynslu og öllu því sem býr innra með því.

Horft yfir eldgosið við Grindavík í gær.
Horft yfir eldgosið við Grindavík í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvissa með framtíðina erfið

Elínborg segir skiptar skoðanir meðal Grindvíkinga um framtíð bæjarfélagsins. Þess vegna telur hún mikilvægt að staldra aðeins við.

„Þetta er eins með öll áföll – maður getur ekki farið að spá eða horfa langt fram í tímann.“

Hún vonar að vísindamenn geti með tímanum kortlagt hvað sé að gerast jarðfræðilega en að alltaf sé best að vera með hugann á deginum í dag og reyna að hlúa að sér.

„Þó það sé erfitt, þá verður maður að æfa sig í því að vera í deginum,“ segir sóknarpresturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert