„Stór hluti eignanna er í góðu ástandi“

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar Þórkötlu fasteignafélags eru nú í óða önn að taka við eignum í Grindavík af seljendum þeirra.

Í tilkynningu frá Þórkötlu segir að afhendingin fari fram á sérstökum skilafundum og mun Þórkatla taka á móti um 30 eignum í þessari viku og áætlað er að taka við 170 til viðbótar í næstu viku.

„Stór hluti eignanna er í góðu ástandi. Það er töluvert um nýleg vel byggð hús í Grindavík sem sloppið hafa vel frá hamförunum hingað til. Svo eru vissulega hús inni á milli sem þarfnast lagfæringa og einhver hús sem eru mjög illa farin og eiga sér litla framtíð,“ segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu, í tilkynningunni.

Hann segir að Þórkatla muni vinna þétt með Náttúruhamfaratryggingu Íslands við að skoða tryggingarstöðu Þórkötlu vegna þeirra eigna sem eru illa farnar

Umsóknir um sölu á fasteignum orðnar 812

Umsóknir frá Grindvíkingum um sölu á fasteignum til Þórkötlu eru nú orðnar 812. Félagið hefur þegar samþykkt kaup á tæplega 700 eignum eða 86% þeirra sem sótt hafa um.

Þinglýstir kaupsamningar eru að nálgast 600 en félagið hefur boðið 640 aðilum eða tæplega 80% umsækjenda kaupsamning til undirritunar. Seljendur hafa fengið um 28,5 milljarða greidda í kaupsamningsgreiðslu og yfirtekin lán frá lánastofnunum nema 14,5 milljörðum króna. 

Útlit er fyrir að heildarfjárfesting Þórkötlu í húsnæði í Grindavík verði allt að 75 milljarður í heildina eða um 14 milljörðum króna meiri en áætlað var við setningu laganna um úrræðið.  Aukinn kostnaður skýrist að mestu af hækkun brunabótamats á eignum í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert