Hjón unnu 21 milljón

Eldri hjón í Hafnarfirði voru ein með allar tölurnar réttar í lottóútdrættinum á laugardag og unnu þau samtals 21 milljón kr. 

Fram kemur í tilkynningu frá Íslenskri getspá að konan hafi fyrst látið athuga vinningsmiðann góða á miðvikudag. Þá var henni sagt að hún yrði að fara beint í höfuðstöðvar Íslenskrar getspár.

Þar fékk hún svo fyrst að vita hve hár vinningurinn reyndist vera og fylltist hún strax mikilli gleði og þakklæti, að því er segir í tilkynningu. 

Munu láta gott af sér leiða

„Aðspurð sagði frúin vinninginn vissulega koma sér vel en þörfin væri þó örugglega brýnni annars staðar og myndu þau hjónin láta gott af sér leiða og leyfa börnum og barnabörnum að njóta með þeim. Konan er hætt að vinna en maður hennar hefur minnkað við sig starfshlutfallið á undanförnum árum. Og þótt hin vikulega ferð til að kaupa í soðið á mánudegi hafi svo sannarlega borgað sig, er aldrei að vita nema stóri vinningurinn geri það að verkum að einhverjar nýjar venjur taki nú við hjá þeim,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert