Velja íslenskt hafsvæði í stað þess karabíska

Eftir miklar veiðar síðustu aldir hafa stofnar hnúfubaks braggast á …
Eftir miklar veiðar síðustu aldir hafa stofnar hnúfubaks braggast á síðustu áratugum. mbl.is/Sigurður Ægisson

Hnúfubakar eru í auknum mæli farnir að dvelja á íslensku hafsvæði yfir vetrartímann og margir þeirra dvelja því við Íslandsmið allt árið um kring, segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor í líffræði við Háskóla Íslands og hvalasérfræðingur.

Greint var frá því á forsíðu Morgunblaðsins í gær að hvalaskoðun hefði gengið vonum framar við höfuðborgarsvæðið í janúarmánuði.

Edda segir það ekki endilega óvenjulegt enda hafi það verið þekkt síðustu 15 ár eða svo að hnúfubakar haldi til við Íslandsmið að einhverju marki allt árið um kring þó þeir séu mun algengari hér á sumrin.

Hnúfubakurinn sækir í fjölbreytta fæðu

Það hafa samt sem áður orðið breytingar á högum hvala við Íslandsstrendur á undanförnum árum segir Edda og útskýrir að hrefnum hafi fækkað verulega samhliða aukinni viðveru hnúfubaka við strendur landsins.

Hnúfubakurinn hefur mögulega hasla sér völl að einhverju leiti á kostnað hrefnunnar en hlýnun sjávar hefur þvingað hrefnuna norðar þar sem hún er háðari sandsíli sem er ekki að finna í jafn miklum mæli við Ísland og áður var.

„Hrefnan er háðari sandsílinu en hnúfubakurinn sækir í fjölbreyttari fæðu,“ segir Edda og útskýrir að við Ísland sé gott fæðuaðgengi á veturna og því nýti hnúfubakurinn sér það.

Hnúfubakur leikur listir sínar við strendur Íslands.
Hnúfubakur leikur listir sínar við strendur Íslands. Ljósmynd/Heimir Harðarson

Ekki endilega merki þess að hnúfubökum fjölgi

Spurð hvort hvölum hafi fjölgað á síðustu árum segir Edda svo ekki endilega vera. Hún bendir þó á að fyrir aldamót hafi hnúfubakar verið ansi fáir í kjölfar umtalsverðra hvalveiða sem stóðu til ársins 1955. Það var síðan upp úr aldamótum sem kom innspýting í stofninn og hnúfubökum fjölgaði.

Edda segist þó ekki sjá merki þess að hnúfubökum haldi áfram að fjölga heldur telur hún líklegt að stofninn hafi náð eðlilegu ástandi miðað við burðargetu íslenska hafsins. Spurð hversu margir hvalir teljist til eðlilegs ástands segir Edda það líklega vera milli 11.000-15.000 hnúfubakar. Þeir halda þó ekki bara til innan íslenskrar landhelgi, segir hún, enda er hnúfubakurinn fardýr.

Einn af þeim stöðum í heiminum sem hnúfubakurinn sækir jafnan í eru suðræn hafsvæði eða Karíbahafið segir Edda, þangað sem dýrin fara á þessum tíma árs til að æxla sig. Þar er fæðuaðgengi þó lítið sem ekkert og því er hnúfubakurinn fastandi í Karíbahafinu, ef svo má að orði komast.

Hnúfubakur í Kyrrahafinu.
Hnúfubakur í Kyrrahafinu. AFP

Ekki ljóst hvort þeir æxli sig við Íslandsstrendur

Gott fæðuaðgengi á Íslandi hefur þó orðið til þess að hnúfubakurinn er farinn að nýta sér íslenskt hafsvæði yfir vetrartímann í meira mæli. Aðspurð segir Edda ekki ljóst hvort þeir æxli sig hér, en hún segir ljóst að þeir auglýsi sig og syngi sína æxlunarsöngva hér líkt og þeir gera á suðræðum slóðum á veturna.

Sjálf hefur Edda rannsakað hvali með hljóðupptökum frá árinu 2008. Síðan rannsóknir hófust hefur iðulega heyrst í hnúfubökum syngjandi á veturna hér við land segir hún og getur þannig staðfest að þeir syngi sömu söngva eða gefi frá sér sömu hljóð og þeir gera áður en þeir æxla sig á suðrænum slóðum.

Auk þess að hlusta á dýrin hefur Edda greint hnúfubakana í sundur og fylgst með því hvort þeir dvelji við Ísland til lengri eða skemmri tíma. Það gerir hún með því að greina litasamsetningu, mynstur og sérkenni á sporði, en hver hnúfubakur er með ákveðið mynstur undir sporðinum.

Hnúfubakur sem sást í hvalaskoðun við Húsavík.
Hnúfubakur sem sást í hvalaskoðun við Húsavík. Ljósmynd/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert