Dregur líklega til tíðinda á næstu vikum

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. Samsett mynd

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að landris við Svartsengi haldi áfram á sama hraða. Land hefur þar risið um 8 millimetra á dag að undanförnu.

Spurður hvort landrisið hafi færst til svarar Benedikt neitandi.

„Þetta er bara mjög svipað og það heldur bara áfram á svipuðum hraða. Miðjan á því er austan við Þorbjörn en það sést víðar og alveg suður til Grindavíkur. Það er á stóru svæði.“

Vikur frekar en dagar

Hann segir að svo virðist sem innflæði kviku sé stöðugt. Líklega sé tíminn, sem það tekur að ná sama kvikumagni og fyrir gosið 14. janúar, mældur í vikum frekar en dögum.

„Þessi atburðarás er í bili að endurtaka sig. Það virðist vera stöðugt kvikuinnflæði og þegar það nær einhverjum mörkum þá fer af stað kvikuhlaup,“ segir Benedikt Gunnar við mbl.is.

„ Þegar það svo klárast þá safnast í það aftur og svo er bara spurning hvað margar umferðir við sjáum í þessu ferli.“

Unnið að varnargörðum við Svartsengi.
Unnið að varnargörðum við Svartsengi. mbl.is/Eyþór

Annað kvikuhlaup eftir nokkrar vikur og jafnvel eldgos

Er það mat ykkar að á næstu vikum dragi til tíðinda?

„Já, ég hugsa það. Það lítur þannig út. Þróunin hefur verið mjög svipuð undanfarið og við gerum ráð fyrir því að eftir nokkrar vikur komi aftur kvikuhlaup og jafnvel eldgos.“

Hann segir að væntanlega sé það þróuninni undirorpið, hvar kvikan geti komið upp.

„Það heldur ekkert endalaust áfram að koma svona sunnarlega. Þetta getur fært sig norðar og  gosin gætu komið upp nær Svartsengi eða á því svæði. Þetta er þróun sem erfitt er að sjá fyrir hvernig verður,“ segir Benedikt.

Innskotin utar á Reykjanesskaga hafa áhrif 

Áfram hafa mælst skjálftar suðaustur af höfuðborgarsvæðinu, norðvestur af Bláfjöllum, í Húsfellsbruna. 

Að morgni laugardags mældist skjálfti að stærðinni 3,1 og um hádegi sunnudags urðu skjálftar af stærðinni 2,9 og 2,8.

Benedikt segist ekki hafa skoðað til hlítar skjálftavirknina á þessu svæði um helgina en honum sýnist í fljótu bragði að þarna sé um að ræða hefðbundna flekaskilaskjálfta.

„Þetta er misgengi sem er virkt og það koma svona hrinur á þessu svæði af og til. Ég held að innskotin á Reykjanesi hafi áhrif. Þau breyta spennusviðinu og geta ýtt við þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert