Gullið tækifæri að setja arðgreiðslur í þjóðarsjóð

Bjarni Benediktsson kynnti fyrst hugmyndir um þjóðarsjóð á ársfundi Landsvirkjunar …
Bjarni Benediktsson kynnti fyrst hugmyndir um þjóðarsjóð á ársfundi Landsvirkjunar árið 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir það vera gullið tækifæri að setja arðgreiðslur frá ríkisfyrirtækjum eins og Landsvirkjun í þjóðarsjóð frekar en að setja alla fjármunina í að auka útgjöld.

Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ), skrifaði í gær grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði nauðsyn þjóðarsjóðs blasa við vegna náttúruhamfaranna í Grindavík.

Þjóðarsjóður myndi hafa það hlut­verk að bregðast við ófyr­ir­séðum áföll­um í þjóðarbú­inu.

„Ég hef í tvígang lagt fram frumvörp um málið og í síðustu útgáfu frumvarpsins, sem við höfum sýnt, erum við að gera ráð fyrir því að það renni fjármunir í þjóðarsjóð þegar skuldastaða ríkissjóðs er orðin lág,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is í kjölfar ríkisstjórnarfundar.

Arðgreiðslurnar að vaxa ört

Bjarni Bene­dikts­son kynnti fyrst hugmyndir um þjóðarsjóð árið 2016, þá fjár­málaráðherra, og seinna stóð til að setja frum­varp um þjóðarsjóð á dag­skrá þing­vet­ur­inn 2018-2019 en ekki varð af því.

„Ég hefði talið að það væri mjög gott tækifæri fyrir okkur núna, þegar arðgreiðslur frá til dæmis Landsvirkjun eru að vaxa svona ört. Arðgreiðslur sem voru kannski á bilinu 3, 4-5 milljarðar fyrir nokkrum árum en eru núna komin upp í 25 milljarða þessi árin,“ segir Bjarni og bætir við:

„Það er alveg gullið tækifæri til þess að neita sér um það að setja þá fjármuni alla á útgjaldahliðina, heldur taka þá til hliðar þegar skuldahlutföllin eru orðin hæfileg,“ segir Bjarni.

Þórdís Kol­brún­ Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir fjár­málaráðherra staðfesti í samtali við mbl.is fyrr í dag að þjóðarsjóður sé á þing­mála­skrá hennar. Hún seg­ir þó að ekki verði greitt inn á slík­an sjóð fyrr en skulda­hlut­fall hef­ur verið lækkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert