Rýkur upp úr nýlögðum Grindavíkurvegi

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.
Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu. mbl.is/Eyþór

Vinna við „nýjan Grindavíkurveg“ ef svo má að orði komast hófst í gær og kláraðist í nótt. Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, segir það ekki sjálfsagt að leggja veg yfir nýtt hraun.

Blaðamaður mbl.is ræddi við Jón Hauk við gatnamótin að Bláa lóninu í dag, þar sem að hraun fór yfir Grindavíkurveg á fimmtudag. 

Hraun fór að renna yfir Grindavíkurveg klukkan 10:20 á fimmtudagsmorgun.
Hraun fór að renna yfir Grindavíkurveg klukkan 10:20 á fimmtudagsmorgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Koma efni og aðföngum á staðinn

Hvers vegna voru þið að leggja þennan veg hér?

„Bæði sem vinnuvegur til þess að koma efni og aðföngum um svæðið, en hitt er náttúrulega það að flytja öll aðföng um Nesveg og Suðurstrandaveg takmarkar flæðið í vinnunni,“ segir Jón Haukur og bætir við að í framhaldinu þurfi að gera svæðið klárt fyrir viðbragðsaðila. 

Er ekkert mál að byggja veg yfir nýtt hraun?

„Nei, það er alls ekki sjálfsagt. En með því að vinna sig rétt inn í það þá gengur það alveg.“

Það rýkur úr nýja veginum sem lagður hefur verið yfir …
Það rýkur úr nýja veginum sem lagður hefur verið yfir hraunið sem fór yfir Grindavíkurveg á fimmtudag. mbl.is/Eyþór

600-700 gráða heitt hraun

Spurður hverjar helstu áskoranirnar voru svarar Jón Haukur að í fyrsta lagið þá er um 600 til 700 gráða heitt hraun um metra undir yfirborðinu.

„En síðan er í raun og veru kalt í toppinn og þetta er unnið með því að hræra efninu í toppinum niður í það sem er orðið fast. Lofta það svolítið og koma síðan með fyllinguna bara yfir. Þannig að fyllingin í raun og veru flýtur bara ofan á þessu,“ segir Jón Haukur og bætir við að vonast sé til að hraunið sé orðið nógu stíft til þess að það gefi ekki eftir. 

„Það gengur upp hérna, það er nægilega þunnt í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert