„Draumurinn að fólk komist í sturtu í kvöld“

Páll Erland, for­stjóri HS Veitna, kveðst vonast til þess að …
Páll Erland, for­stjóri HS Veitna, kveðst vonast til þess að heitt vatn verði komið á í öll hús í kvöld. mbl.is/Óttar

Flutningur heits vatns af höfuðborgarsvæðinu á Suðurnes sem og árangurinn við að laga heitavatnslögnina frá Svartsengi útskýrir hvernig heitt vatn er aftur byrjað að streyma um lagnirnar, mörgum dögum á undan áætlun.

Þetta segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna, í samtali við mbl.is.

Búið er að vinna daga og nætur til að tryggja …
Búið er að vinna daga og nætur til að tryggja Suðurnesjamönnum aftur heitt vatn. mbl.is/Eyþór Árnason

Á laugardag var Suðurnesjamönnum tilkynnt að gera mætti ráð fyrir heitavatnsleysi í 7-10 daga. Í dag, tveimur dögum eftir þær fregnir, er heitt vatn aftur byrjað að streyma um lagnir sumra húsa. Páll segir björninn ekki enn unninn en að líkur séu á að allir Suðurnesjamenn verði komnir með heitt vatn í kvöld.

„Það er ansi margt sem getur gerst, og enn geta lagnir bilað út í kerfunum og heima hjá fólki. En eigum við ekki að segja að það sé draumurinn - draumurinn að fólk komist í sturtu í kvöld,“ segir Páll.

Besta fólk landsins fékkst í vinnuna

Á milli 50-100 manns hafa unnið á öllum tímum við að setja saman lögnina síðustu daga og segir Páll að upphaflega hafi ekki verið gert ráð fyrir því að það yrði jafn auðvelt að finna þennan öfluga mannskap.

„Það er það sem gekk svo vel upp, að fá bara besta fólk landsins. Bæði í vinnuna við heitavatnslögnina og hlynningu á hitaveitunni í sveitarfélögunum hér. Í sameiningu var þessu grettistaki lyft mun hraðar en við gátum séð fyrir okkur,“ segir Páll.

Heitt vatn frá Hafnarfirði sparaði marga daga

Í kjölfar þess að hjáveitulögnin rofnaði á föstudagskvöld var fundað nær slitlaust í leit að nýrri lausn til að koma í veg fyrir frostskemmdir. Snemma á laugardag skaut þessi hugmynd upp kollinum: Að flytja heitt vatn með tankbílum frá Hafnarfirði.

Byrjað var að flytja heitt vatn frá frá Hafnarfirði í samstarfi við Veitur á laugardag og kom sú lausn í veg fyrir nokkra auka daga af heitavatnleysi. Tryggði þetta rennsli, þrýstingi og örlitlum hita á kerfið sem kom í veg fyrir frostskemmdir sem hefðu tafið afhendingu heits vatns á allt svæðið.

Er hægt að telja það í dögum hversu mikinn tíma þessi lausn sparaði?

„Við gerðum ráð fyrir að það gæti alveg tekið þrjá til fjóra sólarhringa en nú erum við trúlega að gera þetta á einum. Það sama má segja HS Orku megin varðandi heitavatnslögnina,“ segir Páll.

Um 50-100 menn hafa unnið á hverri stundu síðustu daga.
Um 50-100 menn hafa unnið á hverri stundu síðustu daga. Eyþór Árnason

Svakaleg atburðarás síðustu daga

Páll rekur í samtalinu tímalínuna sem er sú að upp úr hádegi á fimmtudag rofnar Njarðvíkuræðin, heitavatnslögnin sem skaffaði 30 þúsund manns fyrir heitu vatni.

Degi seinna var byrjað að hleypa vatni inn á „varalausnina“ sem var hjáveitulögn sem var lögð í jörð og tengd við Njarðvíkuræðina. Klukkan 22.30 á föstudag rofnaði sú lögn einnig.

Byrjað var vinnu við nýju lögnina sem átti að tengja við Njarðvíkuræðina á laugardag og er nú heitt vatn sem rennur um hana frá Svartsengi. Eins og fyrr segir getur margt gerst en bindur Páll vonir við að heitt vatn verði komið í öll hús á Suðurnesjum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert