Hafnar samanburði forstjóra Landsvirkjunar

Í hressilegu viðtali í Spursmálum segist Orkumálastjóri ekki geta tekið þá gagnrýni Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, til sín og varðar meintan seinagang stofnunarinnar við afgreiðslu virkjanaleyfis vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

Ferlið tók 18 mánuði og var að lokum fellt úr gildi í kjölfar þess að úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála felldi niðurstöðu Orkustofnunar úr gildi. Var það gert þar sem stofnunin var ekki talin hafa tekið nægilegt tillit til vatnatilskipunar Evrópusambandsins.

Ýtt á innleiðingu

Var Halla Hrund Logadóttir, forstjóri Orkustofnunar, spurð í viðtalinu út í þá gagnrýni forstjóra Landsvirkjunar sem áður hefur komið fram þar sem hann bendir á að virkjanaleyfi hafi alla jafna verið um þrjá til fjóra mánuði í afgreiðsluferli hjá stofnuninni.

Segir Halla Hrund að þar sé um ósanngjarnan samanburð að ræða enda sé Hvammsvirkjun stórvirkjun í samanburði við þær sem samanburðurinn nær til.

Í viðtalinu bendir Halla Hrund einnig á að stofnun hennar hafi ýtt á stjórnvöld að innleiða að fullu vatnatilskipunina, þá hina sömu og úrskurðarnefndin taldi að Orkustofnun hefði ekki tekið nægilega mikið tillit til.

Í desember síðastliðnum var svo greint frá því að Umhverfisstofnun hygðist veita leyfi fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun en fullbúin mun hún skila um 95 MW inn á raforkukerfið sem um þessar mundir er uppselt.

Viðtalið við Höllu Hrund má sjá í heild sinni hér en þar er rætt um orkumarkaðinn, orkuskort á Íslandi og þá gagnrýni sem Orkustofnun hefur fengið á sig, m.a. frá Samtökum iðnaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert